Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spennusigur gegn KR gulltryggði gulum og glöðum deildarmeistaratitilinn
Laugardagur 3. mars 2012 kl. 12:52

Spennusigur gegn KR gulltryggði gulum og glöðum deildarmeistaratitilinn



Tíu sigrar í röð og deildarmeistaratitillinn í hús hjá Grindavík er gulir lögðu KR í toppslag í Röstinni í kvöld. Úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin þar sem krafthúsakappinn J´Nathan Bullock innsiglaði sigurinn, 87-85. Átján umferðum er lokið og Grindavík trónir á toppi deildarinnar með 34 stig en Stjarnan, nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn og Keflavík eru öll í einum hnapp með 24 stig í 2.-4. sæti deildarinnar.
Hvassviðrið virtist fylgja mönnum inn í leikinn því bæði lið þeyttust um völlinn á mistækum upphafsmínútum. Þegar loks fór að lægja í Röstinni seig Grindavík aðeins framúr og leiddu 22-19 eftir fyrsta leikhluta. Karfan.is var á staðnum og sá um ítarlega umfjöllun.

Robert Ferguson skoraði ekki fyrir KR í fyrri hálfleik, hafði sig lítið í frammi og röndóttir virtust lítinn áhuga hafa á því að mata kappann. KR byrjaði þó betur í öðrum leikhluta og komust yfir 30-31 og þar lék Emil Þór Jóhannsson vel í vörn gestanna. Grindvíkingar náðu þó yfirhöndinni að nýju þar sem leikstjórnandinn spræki Giordan Watson átti nokkrar rispur og gulir leiddu 40-37 í leikhléi.

Joshua Brown var stigahæstur hjá KR í hálfleik með 15 stig og 3 stoðsendingar. Hjá heimamönnum í Grindavík var Giordan Watson með 11 stig og J´Nathan Bullock 9 og 5 fráköst.
Nýting KR í fyrri hálfleik: Teigur 55,1% - þriggja 12,5% - víti 66,6%
Nýting Grindavíkur í fyrri háflleik: Teigur 39,1% - þriggja 50% - víti 53,8%

Ferguson stimplaði sig strax inn í síðari hálfleikinn hjá KR með körfu í teignum og gestirnir voru fljótir að ná forystunni, komust í 47-48 þegar Finnur Atli Magnússon framdi alvarlegan glæp. Hann hitti úr þriggja stiga skoti og brotið var á honum en Finnur brenndi af vítinu. Ekki oft sem kallarnir í miðherjastöðum fá svona ,,sénsa" og því blákalt bann við að misnota svona færi. Vítin áttu reyndar eftir að hafa afgerandi áhrif í kvöld.

Grindavík svaraði þessari góðu byrjun KR með látum, tveir stolnir boltar í röð og annar þeirra fékk málalok í skrímslatroðslu hjá Ryan Pettinella og KR bekkurinn nældi sér á þessum kafla í tæknivíti og gulir tóku 8-0 áhlaup á örskömmum tíma og staðan 55-48.

KR svaraði í nánast sömu mynt, komu með 6-0 dembu og fóru síðan að sækja stíft á körfu Grindavíkur. Það reyndist þjóðráð því gestirnir fengu margsinnis körfu og villu að auki, kláruðu færin sín af krafti á meðan Grindvíkingar brutu kæruleysislega af sér. KR vann þriðja leikhluta 30-23 og staðan 63-67 fyrir gestina þegar fjórði og síðasti leikhluti hrökk af stað.

Martin Hermannsson gerði fjögur stig í röð fyrir KR sem komust í 70-73 en allur fjórði leikhluti var í járnum. Varnarleikurinn var framan af í fyrirrúmi en hlutirnir gerðust hratt á lokasprettinum. Skarphéðinn Freyr Ingason skellti niður stórum þrist og jafnaði metin í 80-80 þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Hreggviður Magnússon var skæður og fjögur stig í röð frá kappanum komu KR í 81-84 þegar 1.10mín voru til leiksloka. Giordan Watson jafnaði svo metin með svakalegri þriggja stiga körfu fyrir Grindavík þegar 50 sekúndur voru til leiksloka og staðan 84-84. Næsta sókn KR fór forgörðum og brutu gestirnir á Bullock eftir varnarfrákast hjá kappanum. Bullock tölti sér yfir og kom Grindavík í 86-84 þegar 19 sekúndur voru til leiksloka.

Joshua Brown sótti að körfu heimamann þegar 3,22 sekúndur voru eftir og Þorleifur Ólafsson braut á honum. Brown hélt á línuna og setti niður fyrra skotið en það síðara vildi ekki niður og staðan 86-85. Boltinn dansaði upp úr hringnum og aftur náði Bullock frákastinu og KR braut strax og rétt rúm sekúnda eftir. Bullock var öryggið uppmálað, fór yfir og setti niður fyrra vítið, 87-85. Líkt og flesta grunaði brenndi hann vísvitandi af síðara skotinu, KR náði frákastinu en tíminn var of naumur og þeir komust ekki í gott skotfæri. Grindavík fagnaði því deildarmeistaratitlinum eftir miknn spennuslag gegn KR.

Heildarskor:

Grindavík: Giordan Watson 25/4 fráköst, J'Nathan Bullock 23/9 fráköst, Ryan Pettinella 9/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/6 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Páll Axel Vilbergsson 2/7 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

KR: Joshua Brown 21/4 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Hreggviður Magnússon 14/7 fráköst, Finnur Atli Magnusson 11/6 fráköst, Dejan Sencanski 9, Martin Hermannsson 8, Skarphéðinn Freyr Ingason 8, Robert Lavon Ferguson 7/6 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 4/4 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 3, Darri Freyr Atlason 0, Páll Fannar Helgason 0, Björn Kristjánsson 0.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024