Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Spenntur og smá stressaður“
Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 10:00

„Spenntur og smá stressaður“

- segir Samúel Kári Friðjónsson sem var valinn í HM hóp Íslands í knattspyrnu.

„Þetta er auðvitað frábært, að vera valinn í þennan einstaka hóp. Það hefur alltaf verið eitt af markmiðum mínum að verða framtíðarleikamaður fyrir Ísland,“ segir Keflvíkingurinn ungi, Samúel Kári Friðjónsson, sem var valinn í landsliðshóp Íslands fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi í sumar.

Það kom mörgum líklega skemmtilega á óvart að Keflvíkingurinn ungi skyldi verða valinn í hópinn en hann stóð sig vel í vináttulandsleikjum í vetur í Indónesíu og Mexíkó. Hann hefur líka verið fastamaður í 21 árs landsliði Íslands að undanförnu. „Auðvitað var ég mjög spenntur og smá stressaður. Á endanum er þetta auðvitað geðveikt og ég hlakka mikið til,“ sagði Samúel þegar VF sló á þráðinn til hans til Osló. Þar hefur stráksi verið síðan 2016 en þangað fór hann eftir nokkurra ára veru hjá enska liðinu Reading.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mér hefur gengið mjög vel hjá Vålerenga hér í Noregi eftir að ég komst í gang eftir meiðslin. Ég meiddist á æfingu nokkrum dögum eftir að ég kom og það var mikið áfall sem ég tók eins og hverju öðru hundsbiti og kom sterkur inn aftur um tíu mánuðum síðar. Gunnar Már Másson hjálpaði mér í gegnum þá þraut og á allar þakkir skildar fyrir það,“ en Samúel sleit krossbönd sem oftast eru mjög alvarleg meiðsl.

Vålerenga hefur gengið vel í norsku deildinni í ár og Samúel hefur verið fastamaður í liðinu, skorað eitt mark og lagt upp fjögur frá því deildin byrjaði í mars. Hann leikur á miðjunni og er svokölluð „átta“ en með landsliðinu leikur hann bæði á miðjunni og sem hægri bakvörður. Hann mun missa leiki með liðinu þegar hann fer til Rússlands en segir að því sé sýndur skilningur. „Við erum með sterkari hóp í Vålerenga en í fyrra og erum sem stendur í þriðja sæti og stefnum á að ná Evrópusæti. Það er mjög góður möguleiki á því.“

Samúel segir það frábært að Arnór Ingvi hafi líka verið valinn í landsliðshópinn. „Við höfum verið vinir frá æsku og erum mjög nánir. Hann er frábær og kominn með reynslu. Ég hringdi í hann og óskaði honum til hamingju. Það verður gaman að fara með honum til Rússlands.“

Samúel segir að það sé mikill hugur í íslenska liðinu og mikill spenningur. „Það er magnað að vera hluti af þessum hópi. Við stefnum auðvitað eins langt og við getum. Liðið hefur sýnt að það býr mikið í því. Það er allt hægt.“

En hjálpar það ekki til að komast á stærsta fótboltasviðið á HM þegar draumar um stærri lið eru til staðar? „Það er engin spurning og það er klárlega eitt af mínum markmiðum að spila í efstu deildum í heiminum.“

En hvernig er lífið í Osló?

„Það er frekar ljúft þó maður sakni auðvitað fjölskyldu og vina. Núna er t.d. komið geggjað sumarveður og yfir 20 stiga hiti. Osló er skemmtileg borg og ég hef verið að kynnast henni betur og betur. Hér er yfirleitt aldrei vindur og það er eitthvað sem Suðurnesjamaður á ekki að venjast,“ sagði Samúel að lokum.

Samúel Kári hefur staðið sig vel hjá norska liðinu.