Spenntur fyrir upplifuninni á Laugardalsvelli
Segir Elías Már Ómarsson tvífari Fernando Torres
„Þetta er virkilega stór leikur fyrir okkur yngri leikmennina sem ekki höfum upplifað þetta áður. Þetta leggst mjög vel í mig og ég er virkilega spenntur,“ segir framherjinn ungi Elías Már Ómarsson. Hann segist hafa hugað að þessum leik allt frá því að sigur vannst á Víkingum í undanúrslitum. „Þegar kemur að svona leikjum þá verð ég frekar spenntur en stressaður,“ bætir Elías við en þó segir hann að með auknum spilatíma í sumar sé reynslan að síga inn og taugarnar að styrkjast. „Ég er þokkalega sáttur við það sem ég hef verið að gera í sumar. Auðvitað vil ég gera betur og stefni að því að bæta mig í hverjum leik,“ segir framherjinn efnilegi. Elías hefur verið ýmist í framlínunni eða úti á kanti hjá Keflvíkingum í sumar. Elías er ekki mikið að spá í því hvar hann spilar, heldur hvort hann spili. „Ég hef alltaf verið framherji og kann best við mig þar. Það er þó betra að vera á kantinum en á bekknum.“
Eldri leikmennirnir í liðinu sem hafa unnið bikarinn tala mikið um hvernig tilfinningin er þegar bikarinn fer á loft og Elías segir það vera hvetjandi fyrir þá yngri í hópnum. „Það kitlar óneitanlega að fá að upplifa það sama og þeir hafa gert áður, þessa sigurtilfinningu. Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að spila svona leik. Það verður spennandi að ganga inn á völlinn en ég hugsa að stressið fari þegar flautað verður til leiks,“ segir hinn eldfljóti framherji að lokum.
Elías er tvífari Torres - Spilar betur síðhærður
„Fernando Torres hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega þegar hann var hjá Liverpool sem er mitt lið. Ég lít mikið upp til hans. Ég hef oftast verið með sítt hár allt frá unga aldri. Mér finnst ég alltaf spila betur þegar ég er með sítt hár, það er eitthvað við það,“ segir framherjinn hárprúði þegar blaðamaður segir hann líkan hinum spænska framherja Chelsea. Hártíska hefur loðað við úrslitaleikina í bikarnum og Keflavíkurliðið. Árið 1997 voru glókollarnir áberandi á vellinum, eins sem skeggið var litað. Árið 2006 voru menn svo rakaðir ansi skrautlega á kollinum. „Ég er svo sem til í eitthvað flippað ef það er málið fyrir þennan leik,“ segir Elías léttur í lundu.