Spennan magnast fyrir leik Reynis við Njarðvík á laugardaginn
Reynir og Njarðvík mætast á laugardaginn á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði kl. 14:00 í 2 deild karla í knattspyrnu. Sandgerðingarnir þurfa að sigra til að komast upp fyrir nágranna sína úr Reykjanesbæ og tryggja sér sæti í 1. deild á næsta ári. Njarðvíkingum dugar hins vegar jafntefli til að komast upp um deild. Spennu er farið að gæta í herbúðum beggja liða og stuðningsliði þeirra en 10 ár eru liðin síðan Reynir sigraði Njarðvík í opinberum leik.
Þessi tvö nágrannalið hafa mæst nokkuð oft á knattspyrnuvellinum síðustu ár. Síðasti leikur liðanna var á Njarðtaksvellinum í Reykjanesbæ fyrr í sumar og endaði hann með 1-1 jafntefli. Hjörvar Hermannsson skoraði mark Reynis í fyrri hálfleik, en Ísak Ö. Þórðarson bjargaði stigi fyrir heimamenn með því að skora á síðustu sekúndum leiksins. Síðasta viðureign liðanna á Sparisjóðsvellinum var hins vegar í 1. deildinni árið 2007 á afmælisdegi Knattspyrnufélagsins Reynis í mikilli rigningu. Sá leikur endaði einnig með 1-1 jafntefli þar sem Njarðvíkingar jöfnuðu á síðustu mínútum leiksins. Árni Freyr Guðnason kom Reyni yfir í fyrri hálfleik leiksins en Haukur Ólafsson náði að landa stigi fyrir Njarðvík með marki stuttu fyrir leikslok.
Reynismenn hafa tekið þátt í sögulegum leikjum Njarðvíkinga síðustu árin. Síðasti opinberi leikurinn á hinum sögufræga Njarðvíkurvelli fór fram í 2. deildinni 3. september 2006 þegar Reynir kom í heimsókn. Njarðvíkingar unnu þá léttan 3-0 sigur. Sandgerðingar mættu síðan aftur til Njarðvíkur 2. júlí 2007 og léku við heimamenn í 1. deildinni í fyrsta opinbera kappleiknum á nýjum velli þeirra grænklæddu. Sá leikur endaði með 2-2 jafntefli þar sem Rafn M. Vilbergsson og Alfreð E. Jóhannsson komu Njarðvík yfir í fyrri hálfleik, en tvö mörk með stuttu millibili frá Stefáni Erni Arnarsyni í síðari hálfleik tryggðu Reynismönnum jafnteflið.
Nú eru liðin 10 ár síðan Reynir vann Njarðvík síðast í opinberum leik. Sá sigur kom á Njarðvíkurvelli í 3. deildinni árið 1999. Enn lengra er frá síðasta heimasigri Reynismanna á Njarðvíkingum, en hann kom 29. júlí 1995 þegar Reynir vann öruggan 4-2 sigur í riðlakeppni 3. deildar, en Sandgerðingar unnu einnig leikinn á Njarðvíkurvelli það árið. Einhver sætasti sigur Reynis á Njarðvík kom hins vegar á Njarðvíkurvelli árið 1992 þegar mark frá Gunnlaugi Ólafssyni tryggði 1-0 Reynissigur.