Sparisjóðurinn í Keflavík aðalstyrktaraðili Golfklúbbs Suðurnesja
Sparisjóðurinn í Keflavík og Golfklúbbur Suðurnesja hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára sem m.a. felur í sér að unglingum á sameiginlegu markaðssvæði klúbbsins og Sparisjóðsins stendur í boði að gerast félagsmenn í golfklúbbnum án endurgjalds.
Golf hefur verið ein vinsælasta íþrótt landsins undanfarin ár og Golfsambandið næst stærsta sérsambandið innan vébanda ÍSÍ. GS gerir nú átak í samvinnu við Sparisjóðinn í Keflavík í því að auka þátttöku barna og unglinga á aldrinum 9-14 ára í golfi. Forgjafarkerfið í golfi býður uppá að allir geti keppt á jafnréttisgrundvelli og siðareglurnar hafa reynst mörgum góðar, þar sem kylfingurinn er sjálfur eigin dómari í leik. Klúbburinn réð til sín á árinu golfkennarann Örn Ævar Hjartarson, margfaldan Íslandsmeistara og ber hann hitann og þungann af unglingastarfi klúbbsins.
Golfklúbbur Suðurnesja á og rekur eina glæsilegustu golfaðstöðu landsins í Leiru, Hólmsvöll einn besta 18 holu golfvöll landsins, Jóel, stórskemmtilegan 6 holu æfingavöll, yfirbyggt æfingasvæði og svo inniæfingaðstöðu í Reykjanesbæ.
Á myndinni takast þeir í hendur að lokinni undirskrift samning þeir Baldur Guðmundsson markaðsstjóri SpKef og Sigurður Garðarsson, formaður GS.