Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sonur og EM farseðill hjá Ingvari
Fimmtudagur 12. maí 2016 kl. 13:00

Sonur og EM farseðill hjá Ingvari

„Ein af ótrúlegri stundum sem ég hef upplifað,“ segir EM-farinn og markvörðurinn Ingvar Jónsson

Njarðvíkingurinn og markvörðurinn Ingvar Jónsson var að spila í norsku 1. deildinni sama dag og EM landsliðshópur Íslands var valinn og því var dagurinn mjög sérstakur. „Það róaði mig mikið að fá sms skilaboð áður en þetta var tilkynnt í þessu dramatíska myndbandi á fundinum,“ segir Ingvar sem fylgdist með útsendingunni á hóteli þar sem hann undirbjó sig fyrir leik. Hann var rétt að koma sér niður á jörðina eftir tíðindin þegar blaðamaður náði af honum tali morguninn eftir.

Bjóst allt eins við þessu

„Þetta var ein af ótrúlegri stundum sem ég hef upplifað, magnað að sjá það svart á hvítu að maður sé að fara,“ segir Ingvar sem svífur um að bleiku skýi í Noregi um þessar mundir enda eignaðist hann son fyrir tæpum tveimur vikum. „Það er nóg af stórum stundum á síðustu vikum. Það má segja að lífið gerist ekki mikið betra en þetta.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í upphafi atvinnumannaferilsins gekk Ingvar til liðs við Start en var lánaður þaðan til Sandnes. Hann var svo keyptur við b-deildarliðsins Sandefjord þar sem hann er að finna sig vel. Eftir stóru fréttirnar varðandi Evrópumótið átti hann stórleik, þar sem hann var maður leiksins og hélt hreinu. Hann er á því að hann hafi bætt sig mikið frá því að kom til félagsins.

„Mér fannst ég eiga mikinn séns og jafnvel meiri en aðrir héldu. Ég bjóst allt eins við þessu þannig séð. Mér finnst ég hafa staðið mig vel í síðustu landsliðsverkefnum og þegar ég hef fengið tækifærin þá finnst mér það hafa gengið vel. Þrátt fyrir að hafa ekki verið að spila þá hef ég staðið mig vel á æfingum og sýnt að ég sé að bæta mig mikið.“

Klár ef kallið kemur

Þrír markverðir eru í hópnum og ljóst að Hannes Halldórsson verður fyrsti kostur. Ingvar og Ögmundur Kristinsson verða svo til taks ef eitthvað bjátar á. „Ögmundur hefur verið að spila talsvert þegar Hannes er meiddur þannig að það lítur út fyrir að hann sé næsti kostur. Maður veit samt aldrei enda er þetta fljótt að breytast í fótboltanum. Hannes er augljós fyrsti kostur og á það skilið enda búinn að vera frábær með landsliðinu. Ef eitthvað kemur samt upp á þá veit maður aldrei. Ég hugsa bara að ég þurfi að sýna að ég sé nóg góður til þess að eiga heima í þessu liði. Ef ég fæ kallið þá verð ég 100% klár.“

Brösótt gengi framan af í atvinnumennsku hefur líklega aftrað framgangi Ingvars með landsliðinu. Hann er þó bjartsýnn og hvergi af baki dottinn.

„Ég var frekar ósáttur með hvernig þetta byrjaði hjá Start. Ég sá í hvað stefndi þar sem þjálfarinn og hinn markvörðurinn höfðu starfað saman áður í öðru liði. Mér fannst ekki sömu möguleikar fyrir okkur báða. Þetta var í fyrsta skipti á ferlinum þar sem ég var ekki að spila og ég kannski tæklaði það ekkert allt of vel. Þetta var lærdómsríkt fyrir mig enda er fótboltaferilinn ekki bara dans á rósum. Ég er núna hjá besta klúbbnum í 1. deild og sé það fyrir mér að vera kominn upp í efstu deild á næsta tímabili.“

Ingvar hugsaði ekki til þess að koma heim í íslensku deildina. „Ég hafði hugsað um atvinnumennsku frá því að ég var strákur og var ekki að fara að gefast upp á því eftir eitt erfitt tímabil. Mig langar að gefa þessu séns þar sem ég veit að ég hef fulla burði í að verða ennþá betri í góðri deild á Norðurlöndum.“ Ingvar er aðeins 26 ára en að þykir ekki mikill aldur fyrir markmann. „Ég segi alltaf að það sé eins og tvítugur framherji,“ segir Ingvar og hlær við. „Maður getur átt tíu góð ár eftir í atvinnumennsku,“ bætir hann við.

Magnað að Njarðvík eigi tvo uppalda á EM

Ingvar var að vonum ánægður að sjá Arnór Ingva í hópnum en þeir ólust báðir upp í yngri flokka starfi Njarðvíkur. „Hann er bara Njarðvíkingur, þrátt fyrir að Keflavík hafi hjálpað honum mikið. Ég myndi nú halda það að það sé ansi magnað að klúbbur eins og Njarðvík eigi tvo fulltrúa í hópnum. Það er hálf ótrúlegt og segir mikið til um yngriflokkastarfið og þeirra þjálfara sem voru að þjálfa okkur á þeim tíma.“