Sóknarleikurinn allsráðandi í stórsigri Keflvíkinga
Hill tveimur punktum frá þrennu í fyrsta leik
Það er ekki hægt að segja að varnarleikur hafi verið í fyrirrúmi þegar Keflavík tók á móti Snæfellingum í TM-höllinni í kvöld í Domino's deild karla í körfubolta. Leikurinn endaði með 131:112 sigri Keflvíkinga sem halda sér sem fastast í toppsætinu.
Kanaskiptin virðast hafa heppnast vel hjá Keflvíkingum ef marka má þennan leik en Jerome Hill skoraði 22 stig, tók 11 fráköst og var hársbreidd frá þrennu með 8 stoðsendingar. Maður leiksins var þó Valur Orri Valsson sem fór á kostum og skoraði 27 stig, gaf 14 stoðsendingar og klikkaði varla úr skoti. Valur setti niður öll tveggja stiga skor sín og vítin. Hann var svo með 4/7 í þriggja stiga. Bakvarðaparið öfluga Valur og Reggie Dupree voru illviðráðanlegir í kvöld. Maggi Gunn kom inn af bekknum, spilaði í 15 mínútur, setti niður 6 þrista og lagði 20 stig í púkkið. Heilt yfir voru Keflvíkingar að spila glimrandi sóknarbolta í kvöld.