Sögulegur árangur ÍRB á Íslandsmeistaramótinu í sundi
Kristófer og Davíð náðu lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið í Kanada
Lið ÍRB átti frábæru gengi að fagna á íslandsmeistaramótinu í sundi í 25m laug sem haldið var í Ásvallalaug um liðna helgi. Tveir sundmenn náðu lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið ásamt því að fjögur Íslandsmet, ásamt tveimur aldursflokkametum voru sett af liðsmönnum ÍRB.
Alls vann ÍRB 21 grein af 44 mögulegum á mótinu sem er algjörlega magnað og einstakur árangur. Ekkert sundlið í íslenskri sundsögu hefur áður unnið svo marga titla á einu Íslandsmóti. Í heildina vann liðið til 39 verðlauna á mótinu.
Til flestra titla vann Þröstur Bjarnason, en hann varð Íslandsmeistari í sjö greinum. Fjórum einstaklingsgreinum og þremur boðsundum. Hann sigraði í 200m, 400m, 800m og 1500m skriðsundi ásamt því að vera í sigursveit í þremur boðsundum. Af þeim boðsundum voru tvö þeirra íslandsmet.
Eftirtaldir sundmenn urðu Íslandsmeistarar í eftirtöldum fjölda greina.
Þröstur Bjarnason í 1500m skriðsundi, 800m skriðsundi, 400m skriðsundi, 200m skriðsund og þrjú boðsund. (7)
Sunneva Dögg Robertson í 400m skriðsundi, 200m skriðsundi, 400m fjórsundi og þremur boðsundum. (6)
Eydís Ósk Kolbeinsdóttir í 1500m skriðsundi, 800m skriðsundi og þremur boðsund. (5)
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson í 100m baksundi og fjórum boðsundum. (5)
Baldvin Sigmarsson í 200m flugsundi, 400m fjórsundi, 200m bringusundi og einu boðsundi. (4)
Árni Már Árnason í fjórum boðsundum. (4)
Kristófer Sigurðsson í fjórum boðsundum. (4)
Karen Mist Arngeirsdóttir í 100m bringusundi og 200m bringusundi. (2)
Gunnhildur Björg Baldursdóttir í 200m flugsundi. (1)
Þeir Kristófer Sigurðsson og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson náðu lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið sem haldið verður í Windsor í Kanada í næsta mánuði.
Átta sundmenn náðu lágmörkum fyrir Norðurlandamótið sem einnig er í næsta mánuði en það verður í Kolding í Danmörku. Það eru þau Íris Ósk Hilmarsdóttir, Karen Mist Arngeirsdóttir, Sunneva Dögg Robertson, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Stefanía Sigurþórsdóttir, Kristófer Sigurðsson, Þröstur Bjarnason og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson.
Blandaðar sveitir ÍRB settu tvö Íslandsmet. Í 4 x 100m skriðsundi en þá sveit skipuðu þau Árni Már Árnason, Kristófer Sigurðsson, Sunneva Dögg Robertson og Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og í 4 x 100m fjórsundi en þá sveit skipuðu þau Davíð Hildiberg Aðalsteinsson Árni Már Árnason, Sunneva Dögg Robertson og Eydís Ósk Kolbeinsdóttir.
Karlasveit ÍRB setti tvö íslandsmet. Í 4 x 100m fjórsundi en þá sveit skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Árni Már Árnason, Þröstur Bjarnason og Kristófer Sigurðsson og í 4 x 100m skriðsundi en þá sveit skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Árni Már Árnason, Kristófer Sigurðsson og Þröstur Bjarnason. Karlasveitin í 4 x 200m skriðsundi sigraði þá grein með yfirburðum. Alveg við íslandsmetið í greininni eða aðeins 7/10 frá metinu. Sveitina skipuðu þeir Kristófer Sigurðsson, Baldvin Sigmarsson, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Þröstur Bjarnason.
Tvö önnur met voru sett af sundfólki ÍRB á mótinu. Kvennasveit ÍRB setti Íslandsmet í stúlknaflokki (15-17 ára) í 4 x 200m skriðsundi þegar þær unnu til silfurverðlauna. Sveitina skipuðu þær Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Sylwia Sienkiewicz, Sunneva Dögg Robertson og Stefanía Sigurþórsdóttir. Hitt metið kom í 4 x 100m fjórsundi, en það setti B-sveit ÍRB. Þar slógu þær met í meyjaflokki (12 ára og yngri). Sveitina skipuðu þær Hafdís Eva Pálsdóttir, Sólveig María Baldursdóttir, Eva Margrét Falsdóttir og Ásta Kamilla Sigurðardóttir.
Blönduð sveit sem setti íslandsmet í 4 x 100m skriðsundi, þau Árni, Kristófer, Eydís og Sunneva.
Kristófer Sigurðsson og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson náðu lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið.
Myndir: ÍRB