Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sögulegt mark réði úrslitum
Fimmtudagur 5. júlí 2007 kl. 11:53

Sögulegt mark réði úrslitum

Keflavík er komið aftur í 3. sæti Landsbankadeildar karla eftir tap gegn ÍA í sögulegum leik í gær. Skagamenn höfðu sigur, 2-1, en Bjarni Guðjónsson skoraði bæði mörk Skagamanna. Fyrra markið kom úr vítaspyrnu á 32. mínútu þar sem Kristinn Jakobsson, dómari, áleit sem svo að Ómar Jóhannsson, markmaður Keflavíkur, hefði brotið á Vjekoslav Sadumovic innan teigs. Bjarni átti ekki í vandræðum með að setja boltann framhjá Ómari og kom Heimamönnum yfir. Þannig stóðu leikar í hálfleik, en seinni hálfleikur átti eftir að verða minnistæður í meira lagi.

Keflvíkingar voru sterkari í upphafi seinni hálfleiks þar sem þeir sóttu án afláts, en Skagamenn lágu aftarlega á vellinum. Það var svo á 79. mínútu að Bjarni Guðjónsson gerði sig sekan um mistök sem munu fylgja honum það sem eftir lifir af ferli hans.

Keflvíkingar sendu boltann útaf til að hægt væri að hlúa að meiddum leikmanni ÍA en í staðin fyrir að gefa innkastið aftur til baka á Keflvíkinga fékk Bjarni knöttinn og spyrnti honum í átt að Keflavíkurmarkinu. Ómar í markinu var ekki reiðubúinn þegar skotið fór í háan boga yfir hann og beint í netið. Bjarni sagði þetta hafa verið óviljaverk, en Keflvíkingar voru skiljanlega gríðarlega ósáttir við að markið skildi standa og veittust að Bjarna.

Ekkert var við því hins vegar að gera og hélt leikurinn áfram. Keflvíkingar voru ekki lengi að svara fyrir sig því Hallgrímur Jónasson setti mark á 83. mínútu. Þegar Símun Samúelsen hugðist sækja boltann í netið fékk hann hins vegar óblíðar viðtökur hjá Páli Gísla Jónssyni, markmanni Skagans. Eftir þau viðskipti lá Símun í markinu og Páll var rekinn af leikvelli.

Eftir að leikurinn var flautaður aftur á jafnaðist í liðunum þegar hinn 18 ára gamli varamaður Einar Orri Einarsson straujaði títtnefndan Bjarna niður og fékk verðskuldað rautt spjald fyrir vikið.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og um leið og flautað var af hljóp Bjarni upp í vallarhús og samkvæmt heimildum Víkurfrétta læsti hann að sér svo skapheitir leikmenn Keflavíkur kæmust ekki að honum.

Frekari átök urðu á göngum hússins eftir það og þurfti Bjarni lögreglufylgd út úr húsinu að því er komið hefur fram í öðrum miðlum.

Eftir stendur sú staðreynd að Skagamenn fengu 3 stig út á mark sem er siðlaust með öllu, sama hvort ásetningur hafi verið að baki hjá Bjarna eða ekki. Verður þetta atvik lengi í minnum haft.

 

Þess má geta að hægt er að sjá mark Bjarna með því að smella hér.

 

Hér má sjá hliðstætt atvik úr hollenska boltanum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024