Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Söguleg úrslit hjá Njarðvíkingum
Þriðjudagur 22. nóvember 2011 kl. 12:01

Söguleg úrslit hjá Njarðvíkingum

Á dögunum tók Júdodeild Njarðvíkur þátt í fjórðungsglímu Suðurlands í íslenskri glímu og náði þar sögulegum árangri. Þetta er í fyrsta skipti í 42 ár sem annað félag en þau sem keppa undir merkjum HSK (Héraðssambandsins Skarphéðins) keppir og vinnur til verðlauna. 

Njarðvíkingarnir sópuðu til sín verðlaunum í næstum öllum flokkum, en keppt var í flokki 10-11ára, 12-13 ára 14-15 ára og í fullorðinsflokki.

Í flokki 12-13 ára var Njarðvík með einn keppanda, Ævar Þór Ómarsson. Hann vann til silfurverðlauna og úrslitin voru ekki ráðin fyrr en í síðustu glímu.

Í flokki 14 til 15 ára skipuðu Njarðvíkingar sér í þrjú efstu sætin. Þar voru þeir Kristján Snær Jónsson sem var í 1. sæti, Ástþór Andri Jónsson varð í 2. sæti og loks var það Hafþór Orri Harðarson sem krækti sér í 3. sætið.

Einn keppandi tók þátt í 14-15 ára flokki stúlkna. Það var Sóley Þrastardóttir sem gerði sér lítið fyrir og sigraði þann flokk sem talinn var einn af sterkustu flokkum mótsins, en í honum glímdu tvær sterkustu glímukonur íslands.

Í fullorðinsflokk gerði Birkir Freyr Guðbjarsson sig lítið fyrir og nældi sér í 3. sæti.

Á þessu keppnistímabili hefur Júdódeildin haslað sér völl í öllum fangbrögðum á Íslandi. Keppendur deildarinnar hafa unnið til verðlauna á öllum mótum sem þeir hafa tekið þátt í auk allra titlana sem hafa komið í hús.  Þrír Íslandsmeistaratitlar unglinga í Brazilian Jiu-jitsu, 2 fjórðungsmeistaratitlar í íslenskri Glímu og tveir Haustmótsmeistarar í Júdó. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024