Söfnuðu um 680.000 kr. á styrktarleiknum
Meistaraflokkar Keflavíkur karla í körfubolta og fótbolta sameinuðu krafta sína og héldu styrktarleik fyrir Birgi Alfons Rúnarsson á föstudaginn sl. í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík. Húsið var troðfullt af áhorfendum en umsjónarmenn telja að um 550 manns hafi sótt leikinn og söfnuðust um 680.000 kr.
Leiknar voru 14 mínútur í fótbolta í fyrri hálfleik og 20 mínútur í körfubolta í seinni hálfleik. Fótboltinn náði 25 stiga forskoti í fyrri hálfleik, en fyrir hvert mark voru gefin 5 stig. Leikar jöfnuðust heldur betur í seinni hálfleik og enduðu leikar jafnir, 54-54.
„Ég mun dekka Sigga stóra því ég er sá eini sem hef einhverja þyngd í hann,“ sagði Guðmundur Steinarsson í viðtali við Víkurfréttir í hálfleik. „Og víst það er svona vel mætt á leikinn, þá mun ég einnig troða fyrir áhorfendur,“ sem hann svo gerði við góðar undirtektir.
Strákarnir sem stóðu að leiknum fengu Eið Smára Guðjohnsen til að árita þrjá fótbolta sem voru svo boðnir upp á leiknum. Boltarnir seldust á samtals 150.000 kr. og rann ágóðinn allur í málefnið. Einnig gáfu strákarnir í fótboltaliðinu Birki Keflavíkurtreyju með „Team Birkir“ merkt aftan á treyjunni. Unglingaráðið var svo með sjoppu á staðnum og gaf 40.000 kr. í málefnið.
Dómarar leiksins voru þeir Magnús Þórisson, fótboltadómari og Helgi Arason, körfuknattleiksdómari. Sá sem lýsti leiknum var enginn viðvaningur, heldur hann Valtýr Björn Valtýsson, og fór hann á kostum.
Fleiri myndir frá leiknum má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.