Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Snæfell tekur 1-0 forystu í úrslitarimmunni
Carmen Tyson Thomas tókst ekki að stela sigrinum á lokasprettinum þrátt fyrir góðan leik.
Miðvikudagur 22. apríl 2015 kl. 22:28

Snæfell tekur 1-0 forystu í úrslitarimmunni

Liðin mætast öðru sinni í Keflavík á föstudagskvöldið

Snæfell lagði Keflavík í kvöld í 1. leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í háspennuleik, 75-74.

Jafnræði var með liðunum í 1. leikhluta þar sem að heimakonur í Snæfelli voru þó skrefinu á undan og voru 4 stigum yfir að honum loknum, 22-18. Keflvíkingar unnu svo annan leikhluta 18-27 og voru yfir í hálfleik 40-45.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Snæfell skellti svo í lás í byrjun síðari hálfleik þar sem að Keflvíkingar skoruðu aðeins 5 stig í 3. leikhluta gegn 16 stigum Snæfells sem að leiddu með 8 stigum fyrir lokafjórðunginn.

Þegar 3 og hálf mínúta lifðu leiks var Snæfell 10 stigum yfir, 69-59, og allt útlit fyrir að heimakonur myndu sigla þessu heim. Keflvíkingar hófu þá að saxa á forskotið og þegar 30 sekúndur lifðu leiks minnkaði Carmen Tyson Thomas muninn í 1 stig með þriggja stiga körfu, 73-72. Snæfell hélt í sókn en Kristen McCarthy misnotaði skot sitt og braut svo á Birnu Valgarðsdóttur sem fór á vítalínuna og kom Keflvíkingum yfir með 2 vítaskotum þegar 17 sekúndur voru eftir. Birna braut svo á Hildi Sigurðardóttur sem setti bæði skotin sín niður og kom Snæfelli yfir þegar 6 sekúndur voru eftir. Tilraun Carmen Tyson Thomas til að tryggja Keflavík sigurinn geigaði og Snæfell fagnaði 1 stig sigri, 75-74.

Carmen Tyson Thomas var stigahæst hjá Keflavík með 28 stig og 13 fráköst og þá skoruðu Birna Valgarðsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir 15 hvor.

Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy atkvæðamest með 32 stig og 12 fráköst og Hildur Sigurðardóttir bætti við 21 stigi ásamt 6 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Snæfell hefur því tekið 1-0 forystu í einvíginu en liðin mætast aftur í TM höllinni á föstudagskvöldið.