Snæfell Hópbílameistari, Suðurnesjaliðin tómhent
Snæfell er Hópbílabikarmeistari 2004 eftir sannfærandi sigur á Njarðvík, 79-84. Sigur Snæfells var sá sjötti í röðinni og hafa Njarðvíkingar ekki unnið Snæfell síðan í desember síðastliðnum.
Eftir jafnan fyrsta leikhluta skoruðu Snæfellingar síðustu 5 stigin og breyttu stöðunni í 27-22. Kanarnir hjá Snæfelli, þeir Desmond Peoples, og Pierre Green létu til sín taka og skoruðu 16 stig saman í leikhlutanum.
Í öðrum leikhluta var nokkuð jafnræði með liðunum sem skiptust á að skora, en aftur náðu Snæfellingar góðum endaspretti og með síðustu 7 stigum fyrri hálfleiks var munurinn orðinn 11 stig, 37-48. Fyrir utan Friðrik Stefánsson voru lykilmenn hjá Njarðvík ekki að skila sínu í sókninni, en Snæfellingar gátu stólað á Green sem gerði þrjár 3ja stiga körfur í fjórðungnum.
Í þriðja leikhluta réttu Njarðvíkingar sinn hlut nokkuð og minnkuðu muninn niður í 6 stig. Þannig hélst munurinn út fjórðunginn og voru Friðrik og Anthony Lackey öflugir í stigaskoruninni. Munurinn var 58-66 þegar haldið var út í lokafjórðunginn.
Njarðvíkingar mættu ákveðnir til leiks og minnkuðu muninn í eitt stig, 69-70, eftir 3 mínútur. Snæfellingar héldu þó aftur af þeim og náðu frábærum kafla þar sem þeir skoruðu átta stig í röð á 2 mínútum. Njarðvíkingar tóku góða rispu og minnkuðu muninn í 4 stig, 79-83, þegar um ein mínúta var eftir. Það sem eftir lifði leiks fengu Njarðvíkingar færi til að minnka muninn en mistækur sóknarleikur varð þeim að falli. Pálmi Sigurgeirsson skoraði síðasta stig leiksins og fögnuðu Hólmarar mikið og vel þegar flautan gall og bikarinn var í höfn.
„Við vorum slakari aðilinn í leik. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur, vonsvikinn í leikslok. Halldór Karlsson, fyrirliði þeirra tók í sama streng. „Það var bara eins og vantaði alla stemmningu í okkur.“
Tölfræði leiksins
VF-Myndir/Þorgils Jónsson og Jón Björn Ólafsson