Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Snæfell 1 – 1 Keflavík – myndir og umfjöllun frá leiknum
Þriðjudagur 5. apríl 2005 kl. 00:56

Snæfell 1 – 1 Keflavík – myndir og umfjöllun frá leiknum

Snæfellingar sigruðu Keflvíkinga í kvöld, 97-93, í annarri viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Liðin hafa þá bæði unnið einn leik og mætast þau í þriðja leiknum í Sláturhúsinu á fimmtudagskvöld kl. 19:00. Leikurinn, sem fram fór í Stykkishólmi, var jafn og spennandi allan tímann en heimamenn voru sterkari á lokasprettinum.

Í liði Snæfells var Pálmi Sigurgeirsson heitur í upphafi leiks og gerði tvær þriggja stiga körfur á skömmum tíma og staðan 12-4 Snæfellingum í vil. Keflvíkingar hertu róðurinn og skoruðu sex stig í röð, 12-10. Þá kom annar góður sprettur hjá heimamönnum sem breyttu stöðunni í 19-11. Keflvíkingar hættu þá að leika maður á mann vörn og skiptu yfir í svæðisvörn sem þeir léku til loka leiks. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 27-24 fyrir Snæfell og kom Gunnar Einarsson heitur inn af bekknum fyrir Keflvíkinga.

Fyrirliðinn Gunnar gerði fjórar þriggja stiga körfur fyrir Keflavík í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það voru heimamenn með undirtökin. Anthony Glover fékk sína þriðju villu þegar skammt var til loka annars leikhluta og var því settur á bekkinn til að forðast frekari vandræði. Jón Norðdal skoraði svo síðustu stig fyrri hálfleiks um leið og tíminn rann út og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 44-42.

Heimamenn hófu þriðja leikhluta af krafti og komust í 51-44 en þá hrukku Keflvíkingar í gang og minnkuðu muninn í 55-54. Ágeng vörn Keflvíkinga virtist eitthvað fara í taugarnar á heimaliðinu og fékk Hlynur Bæringsson dæmda á sig óíþróttamannslega villu eftir að Sverrir Þór Sverrisson hafði stolið af honum boltanum. Villuna fékk Hlynur fyrir að þrífa til Sverris eftir að Sverrir hafði stolið boltanum og reynt að bruna fram völlinn. Í stöðunni 61-60 kom góð rispa hjá Keflvíkingum sem skoruðu níu stig í röð og staðan því 61-69. Leikhlutanum lauk svo með stöðunni 68-71 fyrir Keflavík.

Fjórði og síðasti leikhlutinn var svo æsispennandi þar sem liðin skiptust á því að hafa forskot. Í stöðunni 77-77 setti Sverrir Þór niður þriggja stiga skot og Keflvíkingar því komnir yfir 77-80. Þegar einungis þrjár mínútur voru til leiksloka fékk Anthony Glover sína fimmtu villu og varð því frá að hverfa. Lokaspretturinn var tvísýnn en Sigurður Þorvaldsson kom Snæfellingum í 95-93 með þriggja stiga skoti þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka. Í næstu sókn á eftir gerðist umdeilt atvik þegar Magnús Gunnarsson keyrði í átt að körfu Snæfellinga og varð Hlynur Bæringsson á vegi hans. Á sjónvarpsmyndum mátti sjá að Hlynur sló í skothendi Magnúsar en dómarar leiksins töldu það ekki vera brot, Snæfellingar náðu boltanum og tryggðu sér sigurinn á vítalínunni, 97-93.

Nick Bradford var stigahæstur í liði Keflvíkinga með 25 stig en á eftir honum komu Magnús Gunnarsson, Jón Norðdal og Gunnar Einarsson allir með 16 stig. Í liði Snæfells var Michael Ames atvkæðamestur með 22 stig, Calvin Clemmons með 20 stig og Hlynur Bæringsson 18 stig.

Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, var ekki sáttur við niðurstöðu leiksins: „Þetta var hörkuleikur og við erum náttúrulega ekki sáttir við niðurstöðuna, villuvandræðin voru að gera okkur erfitt fyrir, það var einn maður á vellinum með fimm villur og hann var í okkar liði. Við lentum í ýmsu mótlæti í kvöld og náðum ekki að vinna úr því. Við erum með miklu betra lið en Snæfell og ég veit að vinnum leikinn á fimmtudaginn á heimavelli,“ sagði Falur í samtali við Víkurfréttir í kvöld.

Gangur leiksins:
5-2, 10-4, 16-10, 19-11, 25-17, 27-24, 31-31, 37-37, 40-40, 44-42, 51-49, 55-58, 61-60, 65-71, 68-71, 73-77, 82-85, 89-92, 95-93, 97-93.

Tölfræði leiksins

Myndagallery frá leiknum

VF-myndir/ Bjarni Halldór

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024