Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Smíðar sinn eigin keppnisstól
Stóllinn er úr áli og vegur um 8 kg. Arnar er með fína aðstöðu í bílskúrnum þar sem hann vinnur í stólnum og æfir. Það er að mörgu að huga hvað varðar hjólastólaakstur og kostnaðurinn er þónokkur. Mynd/[email protected]
Sunnudagur 8. júní 2014 kl. 11:00

Smíðar sinn eigin keppnisstól

- Arnar Helgi ætlar sér á Ólympíuleikana 2016

Arnar Helgi Lárusson er nýlega kominn heim frá Sviss þar sem hann æfði og keppti um mánaðar skeið. Arnar gerði sér lítið fyrir og kom heim með níu Íslandsmet í farteskinu en hann keppir í hjólastólaakstri mænuskaddaðra. Arnar lamaðist fyrir neðan brjóst árið 2002 en hann hóf að keppa í íþróttinni, sem á nú hug hans allan, árið 2012. Arnar er upptekinn maður en hann er formaður Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra, stundar vinnu og leggur mikinn metnað í íþróttina, en hann æfir tvisvar á dag.

„Ég hef ótrúlega gaman af þessu. Þessi sælutilfinning sem fylgir þessu er engu lík, sérstaklega í löngu vegalengdunum,“ segir Arnar en hann keppti í maraþoni í bland við styttri vegalengdir. Arnar smíðaði sinn eigin keppnisstól en hönnun hans vakti athygli keppenda í Sviss. Einhverjir vildu fá að prófa en það tíðkast alls ekki að keppendur smíði sína eigin stóla. Þannig hefur Arnar alltaf verið, hann fer sínar eigin leiðir. Arnar er með annan stól á teikniborðinu en það er hreinlega aldrei að vita nema hann hefji feril sem hjólastólasmiður þegar íþróttaferlinum lýkur. Arnar nýtti tímann í Sviss til þess að afla sér upplýsinga um smíði keppnisstóla en annars hefur hann þurft að notast við internetið og álíka leiðir. „Ég fór til Sviss í fyrra og ég var alveg eitt ár að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem ég aflaði mér þar. Ég geri ráð fyrir að það sama verði uppi á teningnum núna,“ segir Arnar en þar sem hann er sá eini á landinu sem stundar íþróttina að svo stöddu, þá getur reynst erfitt að leita í reynslubanka annara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er ekki lengur síðastur

Arnar á orðið öll Íslandsmet í sportinu en hann stefnir hátt og ætlar sér á Ólympíleikana í Ríó árið 2016. Arnar er í stöðugri framför en hvernig er hann í samanburði við þá bestu í heiminum? „Þegar ég var á sama móti í fyrra þá var ég alltaf síðastur. Þannig er það ekki lengur og ég er að fikra mig upp stigann,“ en sem dæmi má nefna að Arnar er sem stendur í 34. sæti á heimslistanum í 100 metrunum. Þar eru rúmlega 2000 manns sem vilja komast á þann eftirsótta lista.  „Mig dreymir um að komast til Ríó á Ólympíuleikana 2016. Ef allt gengur upp þá tel ég að um árið 2016 verði ég farinn að komast á pall í mótum. Það er stefnan hjá mér,“ segir Arnar sem verður að fara að gera upp við sig hvort hann hyggist einbeita sér að löngu vegalengdunum eða þeim stuttu. Hann er sterkastur í sprettunum að eigin sögn og líklega mun áherslan verða lögð á þau þegar fram líða stundir.

Langur líftími í íþróttinni

Arnar er þannig séð nýliði í greininni en hann hóf að keppa fyrir um tveimur árum síðan. Flestir þeir sem hann etur kappi við eru búnir að vera að keppa síðan þeir voru ungir strákar. „Grunnurinn hjá þeim er margfalt betri og tæknin er slík að maður skilur hana varla.“
Arnar segir það gott við sportið að líftíminn er langur. „Ég er ekki gamall miðað við marga, þarna eru menn að keppa fram yfir fimmtugt,“ segir Arnar sem er 37 ára gamall.

Vonast til þess að verða öðrum hvatning

Arnar hefur vakið töluverða athygli fyrir vasklega framgöngu sína í sportinu. Hann vonast til þess að verða öðrum hvatning til þess að byrja að hreyfa sig. „Margir hafa orðið áhuga á því sem ég er að gera. Yngri krakkar sem glíma við fötlun sjá mig og þeir sjá hvað ég er að gera. Ég hugsa að það sé að kvikna áhugi.“ Arnar telur að mikill ávinningur geti unnist ef fleiri mænuskaddaðir fari að stunda hreyfingu og íþróttir. Kostnaður sem fylgi slíkum einstaklingi dregst verulega saman ef viðkomandi nær að stunda líkamsrækt að hans mati. „Samfélagslega er ávinningurinn því ómetanlegur. Ekki bara fjárhagslega heldur líka andlega og fyrir alla sem koma að máli.“