Sló 16 ára gamalt Íslandsmet
Ólöf Edda Eðvarðsdóttir, sundkona úr ÍRB, gerði sér lítið fyrir og sló 16 ára gamalt Íslandsmet Láru Hrundar Bjargardóttur í flokki meyja í 200m bringusundi í 25metra laug á Innanfélagsmóti ÍRB í fyrrakvöld. Ólöf Edda synti á tímanum 2:45,41 sem er frábær tími. Tími Láru var 2:46,87. Ólöf Edda hefur gert góða hluti í sundinu undanfarna mánuði og greinilegt að þar er á ferðinni mikil hæfileikastúlka. Margir aðrir góðir tímar litu dagsins ljós á mótinu og eru sundmenn ÍRB óðum að komast í gott form, að því er fram kemur á heimasíðu félagsins.