Slakur seinni hálfleikur banabiti Grindvíkinga
Grindvíkingar máttu sætta sig við stóran ósigur í Powerade-bikarnum í körfuknattleiks fyrir stundu þegar þeir lágu fyrir KR-ingum í úrslitaleik í Laugardalshöllinni. KR vann öruggan sigur með 22 stiga mun.
Grindvíkingar voru langt frá sínu besta og algerlega andlausir á köflum. Leikurinn hófst af ákefð og baráttu eins og búist var við og jafnræði með liðunum allt frá upphafi. Þegar staðan var 6 - 6 tróð svo Ryan Pettinella og Grindvíkingar tóku við sér í höllinni. Aðal áhyggjuefni Grindvíkinga var hve fáir leikmenn komust á blað framan af leik og aðeins Ryan Pettinella og Kevin Sims búnir að skora þegar staðan var 14 - 14. Skömmu síðar kom Ólafur Ólafsson með góða innkomu af bekknum og setti stórt þriggjastiga skot niður og kom Grindavík yfir 20 - 17 en fékk svo tvær frekar vafasamar villur dæmdar á sig í kjölfarið. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20 - 19 Grindavík í vil og Ólafur eini íslenski leikmaðurinn sem hafði skorað. Páll Axel tók svo við sér strax í öðrum leikhluta og skoraði þriggjastiga körfu og fiskaði ruðning á innan við 10 sekúndum og Grindvíkingar taka við sér og ná 28 - 24 forystu þar sem fleiri menn komast á blað. Ólafur setti svo annað þriggjastiga skot niður á mikilvægum tíma og allt ætlaði hreinlega um koll að keyra í stúkunni þegar Grindvíkingar töldu brotið á Kevin Sims á miðjum vellinum, auglýsingarskilti áttu fótum sínum fjör að launa þegar upp úr sauð. Staðan í hálfleik 40 - 39 KR-ingum í vil og allt í járnum. Ryan Pettinella, Kevin Sims og Ólafur Ólafsson drjúgir og Grindavík að frákasta vel. Pavel Ermolisnkji var atkvæðamestur hjá KR. Þorleifur Ólafsson varð fyrir meiðslum á þessum tíma og ekki útlit fyrir að hann sneri aftur.
Sama barátta var uppi á teningnum í upphafi seinni hálfleiks og fengu gæði körfuboltans aðeins að líða fyrir það. Í stöðunni 42 - 44 fyrir KR fékk Brynjar Björnsson dæmdan á sig ásetning eftir brot á Pettinella og nokkur hiti færðist í leikinn í kjölfarið. Þegar tæpar 5 mínútur lifði af þriðja leikhluta hrukku KR-ingar svo í gang og breyttu stöðunni í 54 - 46. Vörn Grindvíkinga virtist veikjast og KR komust 58 - 48 meðan þriggjastiga skot Grindvíkinga voru ekki að falla. Þriðja leikhluta lauk svo með góðum kafla KR og lánleysi Grindvíkinga og 12 stiga munur staðreynd, 65 - 53 KR í vil. Strax í fjórða leikhluta setti Pavel svo tóninn með þrist og munurinn 15 stig, útlitið dökkt hjá Grindvíkingum þar sem þeir voru ekki að finna taktinn í sókninni og vörnin eins og gatasigti. Þegar 7 mínútur lifðu af leik var munurinn orðinn 16 stig 75 - 59 og Grindvíkingar þurftu nauðsynlega á leiðtoga að halda til að rífa liðið upp á því tímabili. Þegar 5 mínútur voru svo eftir voru KR-ingar byrjaðir að fagna sigri enda munurinn orðinn 22 stig 82 - 60. Grindvíkingar virtust þá búnir að gefa upp alla von. KR-ingar léku við hvern sinn fingur og settu á svið þriggjastiga sýningu og ungu leikmennirnir þeirra fóru að týnast inná. Eina spurningin var hversu stór munurinn yrði en lokastaðan varð 72 - 94 KR í vil. KR vann seinni hálfleikinn með 20 stiga mun eftir að jafnræði hafði verið með liðunum framan af.
Atkvæðamestir hjá Grindavík: Kevin Sims 18 stig, Ólafur Ólafsson 17 stig/9 fráköst, Ryan Pettinella 12 stig/ 6 fráköst,
Pavel Ermolinkji var með þrefalda tvennu hjá KR 21 stig 11 fráköst og 11 stoðsendingar og var hann valinn maður leiksins.
Myndir frá leiknum má sjá í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.