Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Slakur leikur hjá Keflavík - KR með annan fótinn í úrslitin
Miðvikudagur 30. mars 2011 kl. 21:53

Slakur leikur hjá Keflavík - KR með annan fótinn í úrslitin

„Það vantar allan töffaraskap og einhver læti í liðið en við erum ekki að komast í þann gírinn,“ sagði Guðjón Skúlason eftir tapið gegn KR í kvöld. Keflavík steinlá fyrir KR í kvöld í Toyotahöllinni 87-105 þegar liðin mættust í öðrum leik undanúrslita Iceland Express deildar karla í körfuknattleik.

Það vantaði ekki mikið til þess að leikurinn yrði spennandi í lokin og jafnt var með liðunum í fyrstu þremur leikhlutunum en í lokaleikhlutanum gekk ekkert upp hjá heimamönnum en allt hjá gestunum sem innbyrtu öruggan sigur.  „Við erum með ákveðið plan sem við ætlum okkur að fylgja en virðumst alltaf falla frá því þegar mest á reynir. Leikurinn er í 40 mínútur, ekki þrjátíu. Við höfum bara einn séns til þess að fá að spila aftur hérna heima og við verðum að nýta hann. Ég nenni ekki að hætta í körfubolta alveg strax,“ sagði Guðjón súr í bragði eftir leikinn.

Marcus Walker skoraði fyrstu stigin í leiknum og komust KR-ingar strax á fyrstu mínútu í 0-7. Keflvíkingar voru aðeins seinni í gang og kom Hörður Axel sínum mönnum á blað á annarri mínútu. Thomas Sanders átti svo frábæra troðslu fyrir Keflvíkinga eftir glæsilega stoðsendingu frá Sigurði Gunnari og heimamenn virtust til alls líklegir.

Á 6. mínútu kom Magnús Þór Gunnarsson inn fyrir Gunnar Einarsson og átti hann góða innkomu en það sást ekki mikið til hans restina af leiknum. Hittnin ekki sú sama og áður. Brynjar Björnsson var heitur í liði KR og setti níunda stigið sitt fyrir lok leikhlutans. Leikhlutinn endaði svo þegar Gunnar Einarsson reyndi flautukörfu en boltinn rataði ekki ofan í körfuna og staðan eftir fyrsta leikhluta 28-34, KR í vil.

Keflavík byrjaði annan leikhluta glæsilega og skoraði Thomas Sanders fyrstu fimm stigin. Liðið lék góða vörn og fiskaði Andrija Ciric ruðning í stöðunni 33-36. Keflvíkingar fóru að hirða fráköstin og komust í fyrsta skipti í leiknum einu stigi yfir, 37-36, en fengu svo dæmda á sig sóknvarvillu eftir að hafa stolið boltanum. Þröstur Leó Jóhannsson kom inn á í von um að breyta leiknum en það var mjög stutt stopp og fór hann útaf rúmri mínútu seinna. Lokakaflinn fyrir leikhlé var slakur hjá báðum liðum og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 45-54 fyrir KR. Marcus Walker fór hrikalega illa með Keflvíkinga en hann skoraði 20 stig í fyrri hálfleik.

Munurinn hélst svo í átta stigum fyrstu þrjár mínúturnar af seinni hálfleiknum. Keflvíkingar fóru svo að spila agaðan sóknarleik ásamt hörðum varnarleik og komust yfir á ný, 59-58 en Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR-inga, tók þá leikhlé. Marcus Walker kom ekki mikið við sögu í þriðja leikhluta þar sem hann var undir stöðugu eftirliti Keflvíkinga. Heimamenn fara svo að skjóta mikið fyrir utan í lok leikhlutans en ekkert ratar ofan í hringinn. Leikhlutinn endaði með því að Ciric náði að minnka muninn af vítalínunni fyrir Keflavík og var staðan fyrir seinasta fjórðunginn 70-73 en allt leit út fyrir að Keflavíkurhraðlestin væri að fara af stað.

Keflvíkingar byrjuðu betur í seinasta fjórðunginum en misstu snöggt dampinn og var mikill vandræðagangur í sóknarleiknum. KR náði því 10 stiga forskoti eftir þriggja stiga körfu frá Skarphéðni Ingasyni. Allt virtist ganga upp hjá gestunum en ekkert hjá heimamönnum. Gífurlega slakur leikur hjá Keflvíkingum í lokaleikhlutanum og þeir skoruðu aðeins 17 stig á móti 32 stigum gestanna. Lokatölur 87-105.

Það er ljóst að fleiri menn hjá Keflvík þurfa að skora stig ef þeir ætla sér eitthvað lengra í þessari keppni en aðeins þrír leikmenn voru með yfir 8 stig í leiknum. Skotin fyrir utan teig gengu mjög illa eins og í síðustu leikjum. Í kvöld reyndu heimamenn 24 sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna en aðeins 4 skot rötuðu ofan í körfuna. Það er ólíkt Keflavíkurhraðlestinni sem hefur lengi verið þekkt fyrir góða hittni fyrir utan.

Stigahæstir í liði Keflavíkur voru Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 21 stig og 13 fráköst, Thomas Sanders með 18 stig, Andrija Ciric með 16 stig og Magnús Þór Gunnarsson með 8 stig og 7 stoðsendingar.
Stigahæstur í liði KR var enn og aftur Marcus Walker með 31 stig og 8 fráköst. Walker, Ermolinskij (17 stig) og Brynjar Björn (17 stig) voru Keflvíkingum erfiðir í kvöld og voru burðarásar KR.

Næsti leikur liðanna fer fram á föstudaginn í DHL höllinni og geta KR-ingar tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri.

Umfjöllun: Sigurður Jónsson
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarsson



Sigurður Gunnar Þorsteinsson var afkastamestur í liði Keflavíkur í kvöld en hann var með 21 stig og 13 fráköst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024