Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Slæmt tap í Eyjum!
Fimmtudagur 15. júlí 2004 kl. 11:04

Slæmt tap í Eyjum!

Grindvíkingar töpuðu illa gegn ÍBV í gær, 2-0.

Leikurinn sem fór fram á Hásteinsvelli var nokkuð skemmtilegur áhorfs, en nú þurfa Grindvíkingar að taka sig á ef ekki á að fara illa hjá þeim í sumar.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn vel og stjórnuðu spilinu framan af. Grétar Hjartarson komst í ákjósanlegt færi strax á 3. mínútu en Birkir Kristinsson í marki ÍBV sá við honum.

Á 32. mínútu urðu hins vegar straumhvörf í leiknum þegar Einar Þór Daníelsson lék laglega á Albert Sævarsson, markmann Grindavíkur og lagði boltann í opið markið.
Staðan var 1-0 og eftir það bökkuðu gestirnir og Eyjamenn náðu sterkari tökum á leiknum.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og ljóst að Grindvíkingar þyrftu að taka sig á ef ekki átti illa að fara.

Grindvíkingar voru lengi í gang með sóknina í seinni hálfleik og náðu ekki að ógna marki að ráði fyrr en undir lokin þegar þeir áttu tvö færi sem hefðu getað breytt gangi leiksins á ný. Allt kom þó fyrir ekki og í uppbótartíma skoraði Atli Jóhannsson annað mark Eyjamanna og gerði endanlega út um leikinn.

„Þetta var alls ekki slæmur leikur hjá okkur,“ sagði Gestur Gylfason í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. „Við vorum betri framan af og vorum óheppnir að fá ekkert út úr leiknum. Jafntefli hefði verið sanngjörn úrslit.“ Gestur bætti því við að nú væri að duga eða drepast fyrir þá. Ef þeir ná ekki góðum úrslitum gegn ÍA á mánudag verði framhaldið erfitt. „Við erum með bakið upp við vegg, en við getum sjálfum okkur um kennt. Við höfum verið að spila undir getu og virðumst ekki kunna að skora.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024