Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skúli fékk gull-heiðursmerki Keflavíkur
Skúli Þ. Skúlason og Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur.
Fimmtudagur 23. febrúar 2017 kl. 06:00

Skúli fékk gull-heiðursmerki Keflavíkur

- Rekstur deilda Keflavíkur í ágætum málum

Rekstur deilda Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, gekk vel á síðasta ári. Aðeins tvær af átta deildum skiluðu taprekstri. Heildarvelta deildanna og aðalstjórnar nam 407 milljónum króna. Heildarhagnaður deildanna og aðalstjórnar nam 11,7 milljónum króna.

Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Aðeins körfuknattleiks- og fimleikadeild náðu ekki að vera réttu megin við núllið í rekstri. Karfan tapaði 4 milljónum og fimleikadeildin 4,6 milljónum króna. Knattspyrnudeildin er lang stærsta deildin, velti 214 milljónum króna og hagnaðist á árinu 2016 um tæpar 12 milljónir króna. Fimleikadeild er næst stærst með 70 milljónir króna í tekjur en hún greiðir mjög háan þjálfunarkostnað eða 42 milljónir.

Á fundinum var Skúla Skúlasyni veitt gull-heiðursmerki félagsins sem er æðsta viðurkenning sem veitt er hjá Keflavík. Skúli var fyrsti formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags sem varð til við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994. Skúli gegndi formennsku í fjögur ár og hefur komið að starfi félagsins á margvíslegan hátt.
Starfsbikar Keflavíkur 2016 fékk Hjörleifur Stefánsson en hann hefur verið einn af mörgum duglegum sjálfboðaliðum Keflavíkur í gegnum tíðina. Hjörleifur hefur starfað mikið fyrir knattspyrnu- og körfuknattleiksdeild.
Birgir Ingibergson og Þórður Magni Kjartansson voru sæmdir gullmerki Ungmennafélags Íslands og Bjarni Sigurðsson og Kristján Þór Karlsson voru sæmdir starfsmerki UMFÍ.

Einar Haraldsson var endurkjörinn sem formaður félagsins. Kári Gunnlaugsson og Birgir Ingibergsson voru kjörnir í stjórn og Sveinn Adolfsson, Birgir Már Bragason og Eva Björk Sveinsdóttir kjörin í varastjórn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Birgir Ingibergsson og Þórður Magni fengu gullmerki UMFÍ.

Hjörleifur Stefánsson fékk starfsbikar Keflavíkur.

Kristján Þór Karlsson fékk starfsmerki UMFÍ. Hér er hann með fulltrúum UMFÍ.