Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 7. febrúar 2002 kl. 13:45

Skuggalegar skuldir knattspyrnunnar í Keflavík

Aðalfundur knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldinn 31. janúar sl. á veitingahúsinu Ránni. Rúnar Arnarsson lagði fram skýrslu deildarstjórnar frá síðasta starfsári og var hún tekin fyrir. Aðalmálið á fundinum var auðvitað slæm fjárhagsstaða knattspyrnudeildarinnar og var hún rædd ítarlega. Knattspyrnan skuldar um 60 milljónir króna og eru margar ástæður fyrir því ef marka má skýrslu Rúnars Arnarssonar formanns deildarinnar en hún er birt í heild sinni hér að neðan.Skýrsla


Árið 2001 var mjög erfitt fjárhagslega fyrir Knattspyrnudeildina. Þó mikið hafi verið skorið niður í rekstri deildarinnar, þá dugði það engan veginn til. Margir tekjupóstar brugðust og því voru tekjur minni en búist var við. Á þessu eru ýmsar skýringar, svo sem að auglýsingasöfnun brást að stóru leyti. Aðalskýringin er þó sú að sárlega vantaði fólk til að starfa fyrir deildina og háði það starfseminni verulega. Sem dæmi má nefna að aðeins hluti þeirra stjórnarmanna sem sátu í stjórn deildarinnar voru virkir. Það er gríðarlegt áhyggjumál fyrir knattspyrnuna í Keflavík hversu fáir eru tilbúnir að starfa í hennar þágu. Þeir eru margir sem þykjast vita allt og hvernig á gera hlutina og eru fyrstir til að gagnrýna allt og alla en eru svo hvergi sjáanlegir þegar á að framkvæma hlutina. Þessu verður að breyta, ef við ætlum að halda úti liði í Símadeildinni og öflugu unglingastarfi. Að öllu óbreyttu fjarar þessi starfsemi út ef ekki verður brugðist við. Mörgum mun þykja uppgjafartónn í formanni deildarinnar en það er alls ekki, heldur kalt mat. Ef svo væri, gæfi ég ekki kost á mér til formennsku í deildinni. Það væri þægilegast að hætta og láta aðra glíma við vandann. Nei, ég hef enn trú að hægt sé að rétta skútuna við og sigla seglum þöndum inn í framtíðina. Það verður að segjast eins og er að það voru mikil vonbrigði hversu lítil viðbrögð sú mikla umræða sem slæm fjárhagsstaða Knattspyrnudeildar Keflavíkur fékk og hversu fáir buðust til að rétta hjálparhönd. Við höfum séð hjá öðrum knattspyrnufélögum hvernig tekið er á sambærilegum vanda. Þessi slæma staða er ekkert einkamál stjórnar deildarinnar heldur allra knattspyrnuáhugamanna í Keflavík. Þær tölur um skuldir deildarinnar sem birtast hér í ársreikningum 2001 eru skuggalegar. Þetta eru uppsafnaðar skuldir í tólf til þrettán ár. Af ýmsum ástæðum hefur þeirra ekki verið getið í ársreikningum öll þessi ár. Upphafið á þessum vanda má rekja allt aftur til 1989 þegar ÍBK fell í 2. deild. Það kostaði mikið átak og mikla peninga að koma liðinu upp í 1.deild aftur. Síðan hefur þetta hlaðið upp á sig og er orðið að þessum vanda sem við blasir. Allir þessir fjármunir hafa farið í að reka deildina og halda úti frambærilegu liði í efstu deild. Við höfum gegnum tíðina lagt mikinn metnað í að halda úti miklu og góðu unglingastarfi sem hefur kostað mikið og hafa æfingargjöld ekki dugað þar til. Við Keflvíkingar höfum orðið að fylgja tíðarandanum undanfarin ár hvað varðar greiðslur til leikmanna og þjálfara og erum að súpa seyðið af því. Kröfurnar hafa verið miklar um árangur og allt reynt til að ná settum markmiðum. Ég er samt sannfærður um að Keflavíkurliðið hefur oftast verið eitt ódýrasta liðið í deildinni en það hefur ekki dugað til. Vildu menn slá af á þessum tíma og eiga það á hættu að missa liðið niður um deild? Svarið var NEI!!!! Þannig var hugsunarhátturinn þá. Stjórnarmenn voru hvattir til að fá þennan leikmanninn og hinn og borga það sem til þurfti. Í dag er allt annar hugsunarháttur og mikil breyting hefur orðið á. Á haustmánuðum var skorið enn frekar niður í rekstri deildarinnar þegar þjálfarar meistaraflokks karla og unglingaflokka sem báðir voru í fullu starfi hjá deildinni létu af störfum og mun ódýrari menn fengnir til starfa. Einnig voru margir leikmannasamningar endurskoðaðir og hagstæðari samningar gerðir. Einnig voru leikmenn losaðir undan samningum. Það liggur fyrir að deildin er búin að skera niður kostnað upp á margar milljónir sem kemur til góða á næstu árum. Staðan í dag er sú að reksturinn er stopp og engin laun eða reikningar greiddir. Ekki er svo með öllu illt að ekki boði gott. Unnið hefur verið ötullega síðan í haust að leysa þennan fjárhagsvanda og sjá menn lausnir í sjónmáli sem hægt verður að útlista fljótlega ef allt gengur eftir áætlun. En það er ljóst að það þarf velvild frá bæjaryfirvöldum og öllum okkar samstarfsaðilum til að þetta gangi upp. Ljósið í myrkrinu er hinn geysiefnilegi leikmannahópur sem við eigum í dag. Þeir ungu leikmenn sem eru núna að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og nokkrir sem hlutu sína eldskírn á síðasta ári, eru þeir leikmenn sem skilað hafa nánast öllum Íslandsmeistaratitlum sem félagið hefur hlotið síðastliðin ca. tíu ár. Þessi leikmannahópur er nánast eingöngu skipaður heimamönnum og verður gaman að fylgjast með þeim næsta sumar.Það er því afar mikilvægt að leysa fjárhagsvanda deildarinnar svo við getum hlúð að leikmönnum okkar sem best og skapað þeim sem bestar aðstæður til að ná árangri. Þar á ég ekki við launagreiðslur heldur þá umgjörð kringum liðið sem nauðsynleg er til að ná þeim markmiðum sem við eigum alltaf að setja okkur, það er að vinna titla. Eins og komið hefur fram þurfti Knattspyrnudeildin að taka þá óskemmtilegu ákvörðun sem þó var raunar sjálfgefin að segja Gústafi Adólfi Björnssyni, þjálfara meistaraflokks upp störfum vegna fjárhagsvandræða (hvað kemur þetta orð oft fyrir í þessum pistli?) Góð sátt ríkti með störf Gústafs og hefði verið gaman að sjá hann stýra þessum leikmannahópi í dag. Ég vil enn og aftur nota tækifærið og þakka honum hans störf í þágu deildarinnar. Nokkrir leikmenn hafa ýmist hætt knattspyrnu eða leitað á önnur mið eftir að leiktímabilinu 2001 lauk. Má þar fyrstann telja fyrirliðann, Gunnar Oddsson sem lagði skóna á hilluna og sama gerðu þeir Ragnar Steinarsson og Kristinn Guðbrandsson. Sagan segir að skór Ragnars Steinarssonar séu nýburstaðir og tilbúnir í slaginn ef á þarf að halda. Þá hefur Eysteinn Hauksson horfið á vit hrísgrjóna í Hong Kong. Þegar þetta er skrifað er verið að ganga frá brottför Gunnleifs Gunnleifssonar frá félaginu. Knattspyrnudeild Keflavíkur þakkar öllum þessum leikmönnum kærlega fyrir þeirra framlag til félagsins og óskar þeim alls hins besta á nýjum vettvangi, bæði utan vallar sem innan.
Unglingastarfið var með blóma þrátt fyrir þá erfiðleika sem herjuðu á félagið, því allt hefur verið gert til að láta þessi vandamál ekki bitna á unglingastarfinu. Er það fyrst og fremst að þakka því góða fólki sem valist hefur til starfa fyrir unglingaráð. Unglingaráð hefur að hluta til verið rekið sér og verið reynt að láta það standa undir sér. Það hefur ekki tekist og hefur deildin orðið að greiða umtalsvert með þessum rekstri. Nú um áramótin síðustu var alveg slitinn í sundur fjárhagur unglingaráðs og meistaraflokks. Þannig á árinu 2002 verður unglingaráð að standa undir öllum rekstri sínum og láta dæmið ganga upp. Unglingaráð fékk nokkra tekjupósta í vöggugjöf, eins og til dæmis getraunasöluna og fleira. Stjórn deildarinnar treystir Grétari Ólasyni, nýjum formanni unglingaráðs og hans fólki að reka þessa einingu með sóma. En það er þó svo að stjórn deildarinnar ber endanlega ábyrgð á fjármálunum. Árangur yngri flokka félagsins var ágætur á árinu og sendum við lið í alla flokka drengja og þrjá flokka stúlkna í Íslandsmótið í sumar. Auk þess var tekið þátt í hinum ýmsu mótum víðsvegar um landið. Er það mál manna að hinir ungu Keflvíkingar og þeir fjölmörgu foreldrar sem fylgja börnunum sínum í keppni hafi haft mikla skemmtun og ánægju af því starfi sem unnið var í yngri flokkunum síðasta sumar. Á haustmánuðum lét yfirþjálfari yngri flokka Velimer Sargic af störfum eftir farsællt starf. Kunnum við honum berstu þakkir fyrir hans störf. Við hans starfi tók Gunnar M. Jónsson sem búið hefur í Borgarnesi en er nú fluttur á heimaslóðir enda Keflvíkingur í húð og hár .Er ekki annað að sjá en að mikil ánægja sé með störf Gunnars og mikill hvalreki að fá hann til starfa.
2. flokkur félagsins náði alveg viðunandi árangri á árinu en þeir enduðu í þriðja sæti í A-riðli. Það lá fyrir að erfitt yrði að fylgja eftir glæsilegum árangri ársins 2000, þegar við urðum Íslandsmeistarar í þessum flokki. Strákarnir léku til úrslita í bikarkeppni 2. flokks en töpuðu fyrir ÍA. Þá er síðast en ekki síst að geta þess að þeir urðu Íslandsmeistarar innanhús 2001. Glæsilegt það. Þessi flokkur lék undir stjórn yfirþjálfara yngri flokka félagsins, Velemir Sargic. Er ekki annað hægt að segja en að hann hafi náð frábærum árangri með 2. flokkinn þau tvö ár sem hann þjálfaði.
Keflavík hélt úti liði í 1. flokki í sumar sem oft áður. Ekki var að sökum að spyrja að 1. flokkur vann Íslandsmeistaratitilinn 2001 og tapaði ekki leik. Frábær árangur og var þetta eini Íslandsmeistaratitillinn utanhúss sem borinn var í hús í Keflavík á árinu.
Árangur meistaraflokks olli nokkrum vonbrigðum í sumar. Við enduðum í sjötta sæti eða sama sæti og árið á undan en með fleiri stig. Þá duttum við úr bikarkeppninni í 8-liða úrslitum gegn KA og voru það mikil vonbrigði. Það vantaði meiri stöðugleika í liðið en við erum tvímælalaust á réttri braut. Eins og komið hefur fram hefur Gústaf Adólf Björnsson horfið á braut og við starfi hans tekið kjarnorkukarlinn KJARTAN MÁSSON. Er hann þegar farinn að setja mark sitt á liðið og er ekki annað að sjá en að bærilega gangi. Er full ástæða til að líta björtum augum á framtíðina knattspyrnulega. Í sumar áttum við Keflvíkingar marga landsliðsmenn í yngri landsliðum Íslands. Jónas Guðni Sævarsson og Hörður Sveinsson léku með U-19 og þeir Guðmundur Steinarsson, Þórarinn Kristjánsson. Ómar Jóhannsson og Hjálmar Jónsson léku með U-21. Eins og menn muna hreppti Guðmundur Steinarsson SILFURSKÓ KSÍ árið 2000 og nú árið 2001 hreppti Þórarinn Kristjánsson BRONSSKÓ KSÍ. Það verður ekki annað sagt þegar litið er yfir keppnistímabilið 2001 að þá sé margt jákvætt eins og sést á upptalningunni hér á undan.
Á ýmsu hefur gengið utan vallar á árinu. Mikið nornaveður geysaði á haustdögum í fjölmiðlum eftir að einn leikmaður okkar fór mikinn á þeim vetvangi. Þann lærdóm getum við lært af svona skrifum og umfjöllun er að það skaðast enginn eins mikið og félagið sjálft af svona orrahríð. Því bið ég menn að ef þeir þurfa gagnrýna eitthvað hjá félaginu að gera það á réttum vettvangi. Að lokum er von mín að friður og sátt ríki um Knattspyrnudeild Keflavíkur í framtíðinni og okkur takist að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem að okkur steðja nú.




F.h. Knattspyrnudeildar Keflavíkur

Rúnar V. Arnarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024