Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skoruðu níu mörk í Skotlandi
Laugardagur 18. mars 2023 kl. 06:04

Skoruðu níu mörk í Skotlandi

Íslandsmeistarar sameiginlegs liðs Keflavíkur og Víðis léku Evrópuleik gegn Raith Rovers í Skotlandi um síðastliðna helgi. Um var að ræða vináttuleik sem leikinn var til styrktar Andy’s Mens Club í Skotlandi en það eru samtök gegn sjálfsvígum karlmanna.

Leikið var á heimavelli Raith Rovers, Stark´s Park, en völlurinn tekur 8.000 manns í sæti. Keflavík/Víðir hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn í eldri flokki síðastliðin þrjú ár og er margar gamlar kempur að finna í liðinu. Byrjunarliðið skipuðu: Ingvar Georgsson í marki, Bjarki Már Árnason, Einar Daníelsson, Davíð Arthur, Björn Vilhelmsson, Karl Finnbogason, Gunnar Oddsson, Zoran Ljubicic, Haraldur Axel Einarsson, Magnús Ólafsson og Ragnar Aron Ragnarsson. Á bekknum voru Víðir Finnbogason, Andrzej Boguniecki, Margeir Vilhjálmsson, Hörður Sveinsson, Björgvin Björgvinsson, Dr. Vignir Helgason og Björgvin Ívar Baldursson. Liðsstjóri var Atli Vilhelmsson.

Leikurinn hófst fjörlega og eftir fimm mínútur voru bæði Magnús og Ragnar búnir að fara illa með góð færi. Magnús opnaði svo markareikninginn með góðum skalla eftir frábæra sendingu frá Andrzej um miðjan fyrri hálfleik. Stuttu síðar tók Davíð Arthur frábærlega á móti boltanum inni í teig og skoraði 2:0 og yfirburðir Keflavíkur/Víðis voru algerir. Heimamenn áttu varla skot á mark. Eitthvað þótti mönnum staðan þægileg og stundargleymska í varnarleiknum endaði með sjálfsmarki með skalla og staðan orðin 2:1. Yfirburðinir í sóknarleiknum héldu áfram en næsta mark kom með glæsilegum flugskalla frá prófessor Vigni Helgasyni sem er búsettur í Glasgow. Undirbúningurinn var allur í höndum Zoran Ljubicic sem fór mjög í taugarnar á heimamönnum, sérstaklega eftir að hafa klobbað þá í nánast hvert skipti sem hann fékk boltann. Uppskar það mikil innanliðsrifrildi meðal Skotanna. 3:1 var staðan í hálfleik og voru þá gerðar miklar skiptingar í liði Keflavíkur/Víðis. Raith Rovers byrjuðu seinni hálfleikinn á að minnka muninn í 3:2 með öðru sjálfsmarki Keflavíkur/Víðis, aftur með skalla. Mörkin í leiknum orðin fimm og öll skoruð af sama liðinu. Björn Vilhelmsson fór inn á miðjuna og náði mikilli ró á varnarleikinn og sóknarþungi Keflavíkur/Víðis jókst enn. Magnús Ólafsson breytti stöðunni  í 4:2 eftir stoðsendingu frá Margeiri Vilhjálmssyni og Margeir bætti sjálfur í 5:2 eftir frábæra stungusendingu frá Haraldi Axel. Magnús fullkomnaði svo þrennu sína stuttu síðar og staðan orðin 6:2. Allt leit út fyrir að það yrðu lokatölur þegar þriðja sjálfsmarkið leit dagsins ljós eftir að markvörðurinn Ingvar blindaðist af flóðljósunum. 6:3 urðu lokatölur. Fáheyrt verður að teljast að íslenskt lið skori níu mörk í Evrópuleik og enn merkilegra að þrjú þeirra endi í eigin marki. Öruggur sigur hjá Íslandsmeisturunum í þessum leik. Magnús Ólafsson var kjörinn maður leiksins eftir frábæra frammistöðu í sókninni en það þótti vega þyngra en frábær frammistaða Einars Daníelssonar í vörninni en hann var eini varnarmaðurinn sem ekki skoraði sjálfsmark.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Magnús Ólafsson var kjörinn maður leiksins eftir frábæra frammistöðu í sókninni.

Gestrisni Skotanna var til mikillar fyrirmyndar og leikurinn, undir stjórn og skipulagi Íslandsvinarins Marc Boal, var mikil skemmtun fyrir á áttunda hundrað áhorfendur sem mættu til að fylgjast með stórskemmtilegum knattspyrnuleik.