Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skoraði sitt  þúsundasta stig
Laugardagur 26. febrúar 2022 kl. 08:43

Skoraði sitt þúsundasta stig

Thelma Dís Ágústsdóttir er 23 ára Keflavíkurmær sem er búsett í Muncie í Indiana. Hún var lykilmaður í meistaraliði Kefla-víkur og varð meðal ann-ars tvö-fald-ur meist-ari með liðinu 2016–2017 og var hún val-inn besti leikmaður -úr-vals-deild-ar kvenna á sama tímabili. Thelma, sem er með BS gráðu í tryggingastærðfræði, stundar nú meistaranám í tölfræði við Ball State University og er í körfuboltaliði skólans. Hún segir Bandaríkin alltaf hafa heillað sig en hún var aðeins fjórtán ára gömul þegar hún fór að stefna að námi þar.

„Ég hafði komið oft áður í frí með fjölskyldunni og svo var ég líka búin að sjá nokkrar stelpur frá Íslandi taka stökkið til Ameríku í háskólaboltann. Ég hugsa að ég hafi verið svona fjórtán, fimmtán ára þegar ég fór að hugsa um það að alvöru að komast í skóla,“ segir Thelma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Thelma segir nokkra skóla hafa haft samband við hana varðandi nám en Ball State University hafði samband við hana í desember 2017. „Ég talaði við þjálfarana og leist mjög vel á, ég fór svo í heimsókn í maí og var mætt út í ágúst,“ segir hún.

Thelma var, að eigin sögn, mjög feimin og segir hún að árin hennar í háskólanum hafi hjálpað henni að „brjótast út úr skelinni“ að einhverju leyti. „Það er varla annað hægt þegar maður er í kringum Kanann sem elskar svokallað „smalltalk,“ segir hún.

Þá segir hún upplifun sína í skólanum vera góða og að smæð samfélagsins hafi hjálpað henni að kynnast fólki. „Muncie er nokkuð lítill bær og flestallt tengist háskólanum að einhverju leyti,“ segir hún og bætir við: „Það er auðvelt að kynnast fólki í samfélaginu, sérstaklega þeim sem hafa áhuga á körfunni og er gaman að sjá hversu vel þau fylgjast með manni.“ Hún segir upplifunina vera nokkuð líka því sem maður sér í bandarískum bíómyndum, svo sem klappstýrur og partý.

Þúsundasta stigið

Árangur Thelmu í körfuboltanum leynir sér ekki en hún hefur byrjað hvern einasta leik með liðinu síðan hún byrjaði í skólanum. Aðspurð hvernig henni hefur gengið að spila með liðinu segir hún: „Fyrir mig persónulega er búið að ganga mjög vel. Í byrjun árs skoraði ég þúsundasta stigið mitt.“

Lið Thelmu er í fjórða sæti í deildinni og liðið keppist nú um sæti í útsláttarkeppni NCAA sem haldin verður í Cleveland en aðeins átta lið komast þar að. „Við erum að spila mjög hraðan og skemmtilegan bolta, þannig ég er spennt fyrir restinni af tímabilinu og vona að við komumst alla leið til Cleveland,“ segir Thelma. Liðið hefur síðustu tvö ár dottið út í fyrsta leik í Cleveland en Thelma segir að nú sé kominn tími til að komast lengra.

Öðruvísi áherslur

Að mati Thelmu er körfuboltamenningin úti öðruvísi en hér heima. „Mér finnst boltinn vera hraðari og leikmennirnir sterkari og fljótari en því sem ég var vön.“

Þá segir hún að lögð sé mun meiri áhersla á skipulag á körfuboltaæfingum en á Íslandi. „Æfingarnar eru lengri og meira „intense“, allt er mjög vel planað og varla mínúta sem fer til spillis,“ segir hún. Þá nefnir hún að tæknin sem sé til staðar sé mun meira notuð í tengslum við æfingar: „Við notumst líka mikið við myndbönd, bæði af okkur sjálfum og og þeim sem við erum að spila við, til að þekkja allt sem andstæðingurinn vill gera ... sem ég þekkti varla þegar ég spilaði heima.“

Þurfti að redda sér

Thelma er á sínu fjórða ári í skólanum en hún segir það hafa komið með ákveðnum áskorunum. „Stærsta áskorunin mín við að hafa flutt hingað út er að þurfa að redda mér og græja hlutina sjálf. Ég var ein af þeim sem miklaði fyrir mér að hringja og panta pítsu þannig að það var aldeilis veggurinn sem ég lenti á þegar ég þurfti að fara að hringja í lækna, setja nafnið mitt á rafmagnsreikninginn og græja skattinn,“ segir Thelma. Hún segir Covid einnig hafa haft áhrif á upplifun sína í skólanum. „Venjulega hefur maður bara fjögur ár til þess að keppa þegar maður er í háskólaboltanum en vegna Covid fékk allt íþróttafólk eitt aukaár. Mastersnámið sem ég er í er tveggja ára prógram þannig að þetta Covid-ár hentaði mér mjög vel því að ég næ að klára það með körfunni og útskrifast vorið 2023,“ segir Thelma.

Thelma stefnir að því að útskrifast úr Ball State háskólanum vorið 2023 og flytja aftur til Íslands eftir útskrift. Aðspurð hver markmið hennar fyrir framtíðina séu segir hún: „Varðandi framtíðina er margt í lausu lofti einhvern veginn. Eina sem ég veit er að ég verð að gera eitthvað í kringum körfuboltann. Allt annað verður eiginlega bara að koma í ljós.“