Skiptir mestu máli að vera stöðugir

- Mikilvægt að halda rútínu fram að landsleikjahléi

„Toppsætið skiptir ofboðslega litlu máli eftir sjö umferðir, við horfum aðallega í fjórtán stigin sem við erum komnir með og við erum afskaplega ánægðir með þau. Það eru sirka tvö stig að meðaltali á leik sem er mjög góð uppskera. En það skiptir bara mestu máli að halda áfram og vera stöðugir,“ segir Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga í samtali við Víkurfréttir.

Tveir leikir eru fram að landsleikjahléi en eins og flestir vita er Heimsmeistaramótið í knattspyrnu framundan í Rússlandi þar sem Ísland tekur þátt í fyrsta sinn.
„Það sem við gerum fram að landsleikjahléi er að halda rútínu og halda áfram að æfa hlutina sem við höfum verið að vinna með og reyna að vera eins ferskir og mögulegt er. Svo verður vel verðskuldað frí í landsleikjahléinu, ég gef þeim fimm daga frí vegna þess að við erum búnir að spila ellefu leiki á 44 dögum þá, sem eru leikur á fjögurra daga fresti.“