Skiptar skoðanir í sjónvarpsviðtali
Guðjóni Þórðarsyni, fyrrum þjálfara knattspyrnuliðs Keflavíkur, og Rúnari Arnarsyni, formanni knattspyrnudeildarinnar, ber ekki saman um ástæður starfsloka hins fyrrnefnda í dag.
Í viðtali í "Íslandi í Dag" á Stöð 2 í kvöld sagði Guðjón að lögmenn hans hefðu ritað deildinni til að ýta á eftir launagreiðslum sem, að hans sögn, höfðu dregist um 76 daga. Þessar meintu fjárhagslegu vanefndir auk ýmissa faglegra þátta sagði Guðjón að hefðu á endanum orðið til þess að hann hefði ákveðið að yfirgefa liðið.
Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2, innti nafna sinn eftir því hvort hann hafi verið í viðræðum við enska liðið Notts County. Þeim ásökunum neitaði hann líkt og hann hafði gert í viðtali við Víkurfréttir fyrr í dag, þrátt fyrir að fréttamenn stöðvarinnar sögðust hafa góðar heimildir fyrir hinu gagnstæða.
Rúnar formaður sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina að Guðjón fari með rakin ósannindi varðandi launamál en játaði þó að einhverjar tafir hafi orðið á greiðslum, en það hafi einungis verið nokkrir dagar. Hins vegar hafi Guðjón sjálfur ekki staðið við loforð sín um að útvega sterka leikmenn að utan þar sem einungis einn leikmaður sé kominn til liðsins í gegnum sambönd Guðjóns í Englandi .
Rúnar bætti því einnig við að annarleg sjónarmið hljóti að hafa ráðið för í ákvörðun Guðjóns og líklegt sé að hann hafi ætlað sér að ráða sig til annars liðs.
Sama hvað því líður segist Guðjón nú vera að skoða sína möguleika en enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér.
Viðtalið við Guðjón má finna í heild sinni á vefsjónvarpi Vísis.is eða með því að smella hér
Greinina um samningsviðræður Guðjóns og Notts County má sjá hér