Skin og skúrir í deildarbikarnum
Keflavík vann góðan sigur á KR í deildarbikar karla í knattspyrnu á laugardag, 3-1.
Keflvíkingar komust í 2-0 með mörkum Baldurs Sigurðssonar og Magnúss Þorsteinssonar áðir en Gunnlaugur Jónsson minnkaði muninn fyrir KR. Það var svo Simun Samuelsson sem tryggði Keflvíkingum sigur í Reykjaneshöllinni með skondnu marki á lokaandartökum leiksins, en stuttu áður höfðu KR-ingar átt bylmingsskalla í slá. Keflavík hefur því unnið fyrstu þrjá leiki sína í keppninni.
Grannar Keflvíkinga voru ekki eins heppnir um helgina því Grindavík tapaði gegn Fylki 2-1 í Árbænum. Jóhann Þórhallsson skoraði jöfnunarmark Grindvíkinga en Fylkismenn komust yfir á ný áður en yfir lauk. Grindavík hefur unnið einn leik en tapað þremur það sem af er.
Í B-deild töpuðu svo Njarðvíkingar og Reynismenn, Njarðvík gegn Gróttu, 1-0, og Reynir gegn HK, 4-0.