Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skelfilegur fyrri hálfleikur Keflvíkingum að falli
Laugardagur 19. mars 2005 kl. 19:58

Skelfilegur fyrri hálfleikur Keflvíkingum að falli

Keflvíkingar töpuðu illa 75-54 gegn ÍS í Kennaraháskólanum í dag. Með sigrinum náðu Stúdínur að jafna einvígið 1-1 og knýja þar með fram oddaleik.

Keflvíkingar byrjuðu skelfilega og skoruðu aðeins þrjú stig í fyrsta leikhluta. Aðeins eitt skota af nítján rataði ofan í leikhlutanum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-3. Keflvíkingar náðu þó aðeins að saxa á forskot Stúdína og staðan í hálfleik 34-19.

Í seinni hálfleik gerðu þær þó áhlaup á Stúdínur og náðu að vinna forskot þeirra í 9 stig en Stúdínur náðu alltaf að hrista þær af sér. Keflvíkingar voru í eltingarleik allan leikinn og staðan eftir þriðja leikhluta, 53-41. En forskot Stúdína reyndist of mikið og þær uppskáru auðveldan sigur 75-54.

Anna María Sveinsdóttir og Alexandria Stewart sáu um megnið af stigaskorun Keflvíkinga. Stewart var með 24 stig og 11 fráköst og Anna María var með 12 stig og 9 fráköst. María Erlingsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir voru með 6 stig hvorar.

Hjá Ís var Signý Hermannsdóttir atkvæðamest með 23 stig og 16 fráköst. Þórunn Bjarnadóttir var með 16 stig og Alda Jónsdóttir með 14.

Sverrir Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga hafði þetta að segja í leikslok: „Slæm byrjun varð okkur að falli í dag og við skorum bara þrjú stig í fyrsta leikhluta, við lentum það mikið undir að við vorum að elta allan leikinn og þegar við náðum einhverju áhlaupi þá var pústið búið hjá okkur og ÍS náði að auka það strax aftur. Það þarf að byrja leikinn á fullu eftir að flautað er á, annars er það of seint, en staðan er bara 1-1 og það er leikurinn á þriðjudaginn sem ræður framhaldinu.”

 

Tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024