Skák og mát?
Uppskerubrestur Keflavíkur í kvennakörfunni virðist á enda kominn. Hungrið hefur einfaldlega heltekið leikmenn Keflavíkurliðsins sem í kvöld skelltu nýliðum KR 84-71 í annarri úrslitaviðureign liðanna í DHL-Höllinni. Nýliðar KR þurfa nú að vinna þrjá leiki í röð til þess að verða Íslandsmeistarar og tveir þeirra myndu þá fara fram í Keflavík þar sem deildarmeistararnir eru enn ósigraðir. Davíð og Golíat myndu vart hætta sér í að setja pening á KR að svo búnu máli.
Pálína María Gunnlaugsdóttir var valin besti leikmaður leiksins en hún fór mikinn í kvöld með 21 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í liði Keflavíkur. Candace Futrell dró vagninn hjá KR með 28 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar.
Staðan var 4-4 eftir fjóra og hálfa mínútu í kvöld en svo losnaði um hömlur liðanna og Keflvíkingar tóku á rás með Pálínu í broddi fylkingar en hún gerði 9 stig í fyrsta leikhluta. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir hleypti svo enn meira lífi í Keflvíkinga er hún setti niður flautuþrist og kom Keflavík 13-21 og þannig stóðu leikar eftir upphafsleikhlutann.
Hildur Sigurðardóttir var ekki að finna taktinn gegn sterkri vörn Keflavíkur. Hildur hefur verið einn sterkasti leikmaður KR í vetur og sást það langar leiðir að nýliðarnir máttu ekki við miður góðum leik Hildar. Hún komst þó á blað þegar 14 mínútur voru liðnar af leiknum.
Keflvíkingar voru ekki bangnir við að hamast í KR, fá villur, spila grimma vörn og láta til sín taka í fráköstum. Í fyrri hálfleik einum töpuðu KR boltanum alls 14 sinnum. Staðan í leikhléi var 31-41 þar sem Pálína var komin með 12 stig hjá Keflavík og Futrell 16 hjá KR.
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir virtist vera eini KR-ingurinn sem mætti klár í síðari hálfleikinn og á meðan höfðu Keflvíkinar öll völd. TaKesha Watson breytti stöðunni í 42-59 með góðum þrist en leikhlutanum lauk í stöðunni 47-61 fyrir Keflavík. Flest allt benti til þess að deildarmeistararnir myndu sigla lygnan sjó í fjórða leikhluta en heimamenn bitu frá sér.
Candace Futrell fékk reyndar snemma sína fjórðu villu í loka leikhlutanum en hún hvíldi stutt og kom aftur inn á völlinn og lék villulaust eftir það. Í stöðunni 49-66 hrukku heimamenn í gang og gerðu fjórar þriggja stiga körfur með stuttu millibili frá þeim Sigrúnu Ámundadóttur og Candace Futrell. KR til mikillar mæðu tókst þeim ekki að loka á Keflavík í vörninni og því ógnuðu þær forskoti gestanna ekki verulega.
Lokatölur urðu því 84-71 eins og áður greinir og var sigur Keflavíkur verðskuldaður mjög. Fjórir leikmenn Keflavíkur gerðu 13 stig eða meira í kvöld og stigahæst var TaKesha Watson með 22 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar en Pálína var með 21 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og lék að vanda glimrandi vörn.
Candace Futrell var langbest í liði KR í kvöld með 28 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar en henni næst var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 17 stig og 17 fráköst. Hildur Sigurðardóttir lauk leik með 11 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar en hún tapaði einnig 8 boltum í kvöld. Þess má einnig geta að Keflvíkingar gerðu vel í að þreyta þennan magnaða leikmann með pressuvörn sem oft small vel saman.
Liðin mætast í sínum þriðja leik í Toyotahöllinni á föstudagskvöld þar sem Keflavík getur landað sínum þrettánda Íslandsmeistaratitli.
VF-Myndir/ [email protected]– Á efri myndinni sækir besti maður leiksins, Pálína Gunnlaugsdóttir, að körfu KR. Á þeirri neðri eru vinkonurnar á meiðslalistanum þær Bryndís Guðmundsdóttir og Marín Rós Karlsdóttir, vitanlega hæstánægðar með vinkonur sínar í Keflavíkurliðinu.