Sjóarinn síkáti: Hafþór Júlíus sterkasti maður á Íslandi
Keppnin sterkasti maður á Íslandi var haldin á Sjóaranum síkáta í Grindavík um helgina. Keppnin var hörð og spennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en í síðustu grein, bóndagöngu og uxagöngu. Alls mættu 7 keppendur til leiks og var hart barist. Sterkasti maður á Íslandi 2010 er Hafþór Júlíus Björnsson eftir mikla baráttu við Benedikt Magnússon.
Keppnin reyndi mikið á þol og einbeitingu keppenda því allar greinarnar fóru fram á sama degi. Hafþór Júlíus er nýr í þessum kraftageira og segja má að hann kom, sá og sigraði. Hann er aðeins 21 árs, 2 metrar og 5 sentimetrar á hæð og vegur hvorki meira né minna en 170 kg! Þessi nýja stjarna hafði betur gegn meistara síðasta árs en Benedikt lét Hafþór svo sannarlega hafa fyrir sigrinum.
Keppnin tókst ljómandi vel og fylgdist fjöldi fólks með kraftajötnunum takast á. Keppnin var á vegum Magnúsar Vers Magnússonar sem var sterkasti maður heims á sínum tíma. Þess má geta að Magnús Ver er með sjónvarpsþátt í vinnslu um mótið og Sjóarann síkáta sem sýndur verður á Ríkissjónvarpinu í sumar.
Lokastaðan var þessi:
1. sæti Hafþór Júlíus Björnson 34 stig
2. sæti Benedikt Magnússon 31,5 stig
3. sæti Ólafur Valur Guðjónsson 28 stig
4. sæti Páll Logason 26 stig
5. sæti Orri Geirsson 24stig
6. sæti Ari Gunnarsson 15 stig
7. sæti Jón Þór Ásgrímsson 9,5 stig
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson