Íþróttir

Sjö leikmenn af Suðurnesjum boðaðir til landsliðsæfinga
Dagur Kár er meðal þeirra sem hefur verið boðaður til landsliðsæfinga.
Fimmtudagur 15. febrúar 2018 kl. 12:40

Sjö leikmenn af Suðurnesjum boðaðir til landsliðsæfinga

Sjö leikmenn af Suðurnesjum hafa verið boðaðir til landsliðsæfinga fyrir þá leiki sem framundan eru hjá landsliðinu í körfu. Þeir eru; ​Dagur Kár Jónsson og Ólafur Ólafsson, Grindavík. Kristinn Pálsson, Maciek Baginski og Ragnar Ágúst Nathanaelsson, Njarðvík. Þeir leikmenn sem boðaðir hafa verið til æfinga eftir helgina í lokaæfingahópinn frá Suðurnesjum eru; Hörður Axel Vilhjálmsson, Keflavík og Logi Gunnarsson, Njarðvík.

Craig Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins í körfuknattleik, og aðstoðarþjálfarar hans, Arnar Guðjónsson og Finnur Freyr Stefánsson, hafa boðað leikmenn til æfinga fyrir landsleikina sem framundan eru í undankeppni HM karla 2019.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Formlegar landsliðsæfingar hefjast eftir helgina en áður en að þeim kemur hafa verið boðaðir til æfinga á laugardag og sunnudag 20 leikmenn sem eiga kost á að verða boðaðir til áframhaldandi æfinga í loka æfingahópnum. Í hópnum sem mætir fyrr til æfinga eru bæði leikmenn sem hafa verið í eða í kringum landsliðsæfingahópinn að undanförnu, ungir og efnilegir leikmenn og leikmenn sem hafa verið að stíga sín fyrstu spor með A-landsliðinu undanfarið.

Hópurinn æfir saman eins og áður segir um helgina og verða þá í kjölfarið nokkrir leikmenn boðaðir til áframhaldandi æfinga í lokaæfingahóp fyrir landsleikina tvo sem framundan eru, dagana 23. febrúar og 25. febrúar gegn Finnlandi og Tékklandi, hér heima í Laugardalshöllinni.

Um er að ræða gríðarlega mikilvæga leiki fyrir Ísland þar sem nauðsynlegt er að ná góðum úrslitum upp á framhald undankeppninnar, en liðið lék gegn Tékkum og Búlgaríu í nóvemberglugganum, þar sem báðir leikir töpuðust.

Það verður því krefjandi verkefni sem bíður þeirra 12 leikmanna sem valdir verða í landsliðið að þessu sinni í næstu viku.