Sjáum við annan útisigur?
Grindavík og Njarðvík mætast þriðja sinni
Þriðji leikurinn í undanúrslitaeinvígi Grindvíkinga og Njarðvíkinga í Domino's deild karla fer fram í Röstinni í kvöld. Staðan í rimminni er 1-1 en bæði lið hafa unnið útileiki til þessa. Fyrst unnu Njarðvíkingar í spennandi leik í Röstinni, en Grindvíkingar svöruðu fyrir sig með öruggum sigri í Ljónagryfjunni þar sem Íslandsmeistararnir léku við hvurn sinn fingur.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 að þessu sinni en stuðningsmenn liðanna ætla að hittast fyrir leik á Salthúsinu og gæða sér á léttum veitingum. Töluverð stemning hefur verið á leikjunum til þessa og líklega mun engin breyting verða þar á í kvöld.