Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sjálfsmark og víti þegar Keflavík tapaði fyrir Þrótti
Melanie Claire Rendeiro var ekki á skotskónum í gær og misnotaði nokkur góð færi. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 31. júlí 2024 kl. 08:43

Sjálfsmark og víti þegar Keflavík tapaði fyrir Þrótti

Keflvíkingum hefur gengið illa að halda forystunni á þessu tímabili í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Keflavík komst tveimur mörkum yfir í gær gegn Þrótti sem barðist fyrir sínu og hafði skorað fjögur mörk þegar flautað var til leiksloka.

Keflavík er í slæmri stöðu, er í neðsta sæti deildarinnar með níu stig. Fylkir er sömuleiðis með níu stig og Tindastóll tólf en Keflvíkingar eiga leik gegn Víkingi til góða og fari svo að Keflavík vinni hann komast þær úr fallsætinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þróttur Reykjavík - Keflavík 2:4

Keflvíkingar náðu forystu á 27. mínútu þegar Melanie Claire Rendeiro lék upp vinstri kantinn og sendi fastan bolta fyrir mark Þróttar. Varnarmaður heimaliðsins reyndi að hreinsa frá en tókst ekki betur til en svo að boltinn hafnaði í netinu, sjálfsmark (27').

Tæpum tíu mínútum síðar fengu Keflvíkingar vítaspyrnu og þótti mörgum það frekar ódýrt. Anita Lind Daníelsdóttir tók spyrnuna og skoraði örugglega (36').

Nokkrum mínútum síðar var Rendeiro nærri því að skora þriðja mark Keflavíkur þegar hún vann boltann af varnarmanni Þróttar en hún skaut framhjá opnu marki.

Í þann veginn sem fyrri hálfleik var að ljúka fengu Þróttarar aukaspyrnu sem þær sendu inn á teig Keflvíkingar, þar varð Evu Lind Daníelsdóttur á í messunni og hún minnkaði muninn í eitt mark með sjálfsmarki (45').

Melanie Rendeiro fékk dauðafæri snemma í seinni hálfleik þegar hún fékk stungusendingu inn fyrir vörn Þróttar rétt innan við miðju. Rendeiro reyndi að fara framhjá markverði heimakvenna sem hirti af henni boltann.

Þróttarar tóku að vinna sig betur inn í leikinn en eftir rúmt korter af fyrri hálfleik komst Rendeiro enn einu sinni inn fyrir vörnina. Hún fékk þá langa sendingu og hafði betur í kapphlaupinu við markvörð Þróttar en náði ekki að vinna sig inn að markinu. Rendeiro sendi boltann fyrir markið á fyrirliðann, Kristrúnu Ýr Holm, sem kom aðvífandi en skot hennar fór hátt yfir markið.

Vera Varis varði oft og tíðum vel í leiknum og verður henni ekki kennt um tapið.

Þróttur jafnaði leikinn skömmu síðar með skoti (eða fyrirgjöf) utan af kanti (68'). Þrótturum óx ásmegin og rétt um fimm mínútum síðar áttu þær hörkuskot í slánna.

Þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka náðu heimakonur forystu eftir fyrirgjöf utan af kanti sem sóknarmaður kastaði sér fram og skallaði að marki en Vera Varis var vel vakandi og varði vel. Frákastið féll þó fyrir fætur Maríu Evu Eyjólfsdóttur sem gat ekki annað en skorað (79').

Þróttarar ráku síðasta naglann í kistu Keflvíkinga í uppbótartíma þegar Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir var óvænt á auðum sjó eftir hreinsun frá marki Þróttar og skoraði örugglega framhjá Varis (90'+2).

Enn eitt tapið hjá Keflavík sem tóku forystu en misstu hana niður og staða liðsins er orðin grafalvarleg.