Sindri með svakalegan sjóbirting í „stúdíói“ náttúrunnar

Fékk 11 punda fisk í hinum glæsilega Hagafossi Geirlandsár

„Þetta var ævintýraleg löndun á geggjuðum stað,“ segir Sindri Þrastarson, ungur Keflvíkingur sem veiddi 80 sm. og ellefu punda sjóbirting í Geirlandsá sem Stangveiðifélag Keflavíkur hefur haft á leigu í mörg ár. Sjóbirtingsveiðin er að hefjast en óhætt er að segja að Sindri hafi tekið forskot á sæluna og keflvískir stangveiðimenn vona að hann hafi gefið tóninn fyrir komandi haustveiði.

Sindri fékk veiðibakteríuna í gegnum tengdaföður sinn, Stefán Einarsson, smíðaverktaka en hann hefur verið iðinn við að fara með fólkið sitt í veiði. Geirlandsá er falleg sjóbirtingsá austur í landi og þar hafa Keflvíkingar veitt í mörg ár. Guðrún Mjöll Stefánsdóttir, unnusta Sindra, var með honum í veiðinni sem og fleiri úr fjölskyldunni. Sindri segir að ákveðið hafi verið að fara upp að Hagafossi og veiða á sex veiðistöðum á þeirri leið. Fosshylur í Geirlandsá er efsti staðurinn í ánni og einn af fallegri veiðistöðum landsins. Hylurinn er mjög djúpur og landslagið í umhverfinu er stórfenglegt. Veiðin á leiðinni gekk ekki vel en um klukkustund tekur að fara upp að fossinum með stuttu stoppi á veiðistöðunum.

„Þegar komið var að fossinum fékk hópurinn sér nesti og naut umhverfisins. Svo var kastað út í og ekki þótti veiðivonin mikil miðað við fyrri veiðistaði. Nýr maðkur var þræddur á öngulinn og þung sakka og viti menn, fiskurinn var á í öðru kasti. Hann var ansi sprækur og barðist töluvert áður en honum var náð þreyttum á grynningarnar en enginn háfur var með í för og grýttur bakkinn ekki álitlegur til löndunar. Þegar fiskurinn var komin um hálfan metra frá landi slitnaði girnið og fiskurinn laus. Ungur og efnilegur veiðimaður, Tómas Elí, mágur minn, var fljótur að bregðast við og „vippaði“ honum í land með báðum höndum. Ævintýraleg löndun á ævintýralegum stað! Sjóbirtingurinn mældist 11 pund og 80 cm,“ segir Sindri þegar hann rifjar upp atvikið.

Myndin hefur vakið athygli enda mjög skemmtileg. Hana tók Guðrún Mjöll, unnusta Sindra,  og fangar hún veiðistaðinn, landslagið og umhverfið allt í kring á skemmtilegan hátt. Guðrún var með nýja og netta Sony myndavél og smellti þessari flottu mynd af kærastanum sem er rammaður inn í hana eins og í stúdíói. Nú var stúdíóið náttúra Íslands í sínum flottustu fötum.

Sindri og Guðrún Mjöll í Geirlandsá í sumar.