Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Silfurhelgi hjá Keflvíkingum
Mánudagur 3. október 2011 kl. 14:05

Silfurhelgi hjá Keflvíkingum

Bæði karla og kvennalið Keflvíkinga töpuðu úrslitaleikjum sínum í Lengjubikarnum í körfubolta um helgina. Hjá körlunum stóðu Stjörnumenn uppi sem sigurvegarar eftir 97-87 sigur á Keflvíkingum en hjá stúlkunum var öllu meiri spenna. Jón Björn Ólafsson var á leikjunum og birti eftirfarandi umfjöllun á vefsíðunni karfan.is.
Íris Sverrisdóttir kom Haukum í 6-9 er hún skoraði og fékk villu að auki en Keflvíkingar beittu svæðisvörn sem Haukar leystu vel í byrjun. Þegar leið á upphafsleikhlutann þéttu Keflvíkingar vörnina og leiddu 18-16 að loknum fyrsta leikhluta.

Haukar höfðu frumkvæðið í öðrum leikhluta þar sem hin magnaða Jence Rhoads leiddi þær áfram og Hafnfirðingar voru yfir 28-32 í hálfleik þar sem Rhoads var með 19 stig og 3 fráköst. Þá var Íris Sverrisdóttir með 5 stig í liði Hauka. Jaleesa Butler var atkvæðamest í liði Keflavíkur í hálfleik með 11 stig og 11 fráköst og Birna Valgarðsdóttir var með 8 stig.


Hafnfirðingar opnuðu síðari hálfleik af krafti og náðu 2-11 áhlaupi og staðan 28-40 þegar Falur Harðarson tók leikhlé fyrir Keflvíkinga. Eitthvað hafa þjálfarar Keflavíkurliðsins komið við kauninn í sínum leikmönnum sem fóru strax að saxa á muninn en Haukar leiddu þó 45-49 að loknum þriðja leikhluta með vel þegnum þristi frá Margréti Rósu Hálfdánardóttur sem voru lokastig leikhlutans.


Sara Rún Hinriksdóttir var lífleg í Keflavíkurliðinu á lokasprettinum og jafnaði leikinn í 57-57 en þá hafði hún skorað sex stig í röð fyrir Keflvíkinga. Verður spennandi að fylgjast með Söru í vetur sem er liðsmaður í U16 ára landsliði Íslands og einn af efnilegri leikmönnum þjóðarinnar um þessar mundir.


Lokaspretturinn var í járnum en Jence Rhoads stal boltanum, skoraði og fékk villu að auki og kom Haukum í 62-59 þegar skammt var eftir. Keflvíkingar misnotuðu svo tvö víti til að komast yfir þegar 28 sekúndur voru eftir.

Jaleesa Butler fékk sína fimmtu villu þegar Keflvíkingar brutu á Haukum þegar 10 sekúndur voru til leiksloka og Keflavík braut svo strax aftur til að fá Hauka á vítalínuna í stöðunni 61-62 Haukum í vil. Jence Rhoads hitti þá bara úr fyrra vítinu og staðan 61-63 en Sara Pálmadóttir tók þá mikilvægt sóknarfrákast og dæmt var uppkast þar sem Keflvíkingar hrúguðst strax á Söru. Haukar áttu boltann eftir uppkastið, tóku hann inn og Keflvíkingum tókst ekki að brjóta á þeim að nýju og Haukar því Lengjubikarmeistarar með 61-63 sigri.

Stigaskor:

Keflavík: Jaleesa Butler 19/19 fráköst/4 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 16/6 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 11, Helga Hallgrímsdóttir 6/8 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 4/4 fráköst/6 stoðsendingar, Aníta Eva Viðarsdóttir 3, Hrund Jóhannsdóttir 2/4 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Sigrún Albertsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0.

Tap gegn Garðbæingum

Stjarnan varð Reykjanesmeistari karla með öruggum 97-87 sigri á Keflavík.
Garðbæingar leiddu 49-41 í hálfleik þar sem Keith Cothran var með 15 stig í liði Stjörnunnar og Charles Parker með 17 í liði Keflavíkur.

Í þriðja leikhluta stakk Stjarnan af, Keflvíkingar fengu dæmdar á sig sex villur á tveimur mínútum og þar af voru tvær tæknivillur eftir samskipti þeirra við dómara leiksins. Garðbæingar voru því með skotrétt næstu átta mínútur í leikhlutanum og leiddu síðan 78-59 að leikhlutanum loknum.

Eftirleikurinn var nokkuð þægilegur hjá Stjörnunni þó Keflavík hefði klórað lítið eitt í bakkann og lokatölur voru 97-87 Garðbæingum í vil. Keith Cothran var með 23 stig, Jovan Zdravevski 18, Justin Shouse 16 og Dagur Kár Jónsson 10 í liði Stjörnunnar. Arnar Freyr Jónsson skoraði 28 hjá Keflavík og var heitur fyrir utan, Charles Parker bætti við 19 stigum, Jarryd Cole 17 og Valur Orri Valsson gerði 10.

Karfan.is

Myndir/ [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024