Silfur hjá Suðurnesjaliðum í Höllinni
Leikið var til úrslita í nokkrum yngri flokkum í körfuknattleik um helgina og fóru úrslitaleikirnir fram í Laugardalshöll. Nokkur Suðurnesjalið léku til úrslita en ekki tókst að færa heim Íslandsmeistaratitil á þessu ári.
Haukar og Njarðvík mættust í úrslitaleik kl. 10:00 á sunnudag í 10. flokki kvenna þar sem Haukar fóru með 68-49 sigur af hólmi. Guðbjörg Sverrisdóttir, Haukum, var valin besti maður leiksins en hún gerði 27 stig, tók 13 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Stigahæst í liði Njarðvíkur var Erna Teitsdóttir með 11 stig.
Haukar og Grindavík léku svo til úrslita í stúlknaflokki þar sem Haukar fóru að lokum með 77-70 sigur af hólmi eftir æsispennandi leik. Ragna M. Brynjarsdóttir, Haukum, var valin besti maður leiksins með 19 stig og 11 fráköst en hjá Grindavík var Alma Garðarsdóttir atkvæðamest með 21 stig.
Keflavík og KR mættust í úrslitaleiknum í drengjaflokki þar sem framlengja varð leikinn. Brynjar Björnsson var maður leiksins með risaþrennu en hann gerði 44 stig í leiknum, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Stigahæstur í liði Keflavíkur var Elvar Sigurjónsson með 27 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Brynjar Björnsson tryggði KR inn í framlengingu gegn Keflavík með því að hitta úr ótrúlegu lokaskoti í venjulegum leiktíma. KR reyndist síðan sterkari aðilinn í framlengingunni.
VF-myndir/ [email protected]