Silfrið komið til Keflavíkur
Keflavík með sigur á Gróttu í Lengjudeild kvenna
Keflvíkingar tóku á móti Gróttu á Nettóvellinum í dag þar sem silfurlið Lengjudeildarinnar vann sannfærandi 3:1 sigur.
Keflavíkurstelpur hófu leikinn af krafti og uppskáru mark eftir fyrstu sókn sína, það var Paula Isabella Germino Watnick sem gerði vel og skoraði úr þröngu færi (3').
Paula átti síðan góða sendingu fyrir markið á 15. mínútu þar sem fyrirliði Keflvíkinga var réttur maður á réttum stað og skallaði í netið. Keflavík komið í 2:0 eftir stundarfjórðung.
Grótta minnkaði muninn eftir að Ásta Vigdís Guðlaugdsdóttir, markvörður Keflvíkinga, hafði misst boltann frá sér eftir fyrirgjöf. Staðan því 2:1 í hálfleik.
Í seinni hálfleik komust Keflvíkingar í tveggja marka forystu þegar Kristrún Ýr Holm, maður leiksins, afgreiddi fyrirgjöf í mark Gróttu, 3:1.
Keflavík var talsvert beittara liðið í sínum aðgerðum og áttu fjölmörg hálffæri þar sem vantaði aðeins herslumuninn upp á að klára dæmið. Silfurliðið kláraði samt leikinn með öruggum sigri og að leikslokum var leikmönnum afhentir silfurpeningar Íslandsmótsins.
Meðal fjölmargra stuðningsmanna Keflavíkur var Sveindís Jane Jónsdóttir mætt til að samgleðjast sínu uppeldisfélagi og fyrrum liðsfélögum. Sveindís leikur með Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna og eftir sigur í gær á Val er hún nánast orðin Íslandsmeistari með Blikum. Hún er í stuttu spjalli við Víkurfréttir sem sjá má í spilaranum hér að neðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir og viðtöl við fyrirliða Keflvíkinga, Natasha Anasi, og Sveindísi Jane Jónsdóttur.