Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigurvegarar í Skólahreysti æfa stíft fyrir mótið í Finnlandi
Mánudagur 2. maí 2011 kl. 10:31

Sigurvegarar í Skólahreysti æfa stíft fyrir mótið í Finnlandi

„Þetta var rosalega langur undirbúningur eða alveg frá janúar. Svo voru æfingarnar í hámarki yfir páskanna,“ sögðu krakkarnir úr Holtaskóla. Holtaskóli sigraði Skólahreysti þetta árið og heldur liðið til Finnlands í keppni sem haldin verður þar í lok maí.

Liðið skipaði þetta árið þau Eyþór Guðjónsson, Birkir Freyr Birkisson, Sólný Sif Jóhannsdóttir og Elva Dögg Sigurðardóttir. Allir þessir krakkar æfa íþróttir og eru miklir íþróttamenn. Strákarnir æfa fótbolta og stelpurnar æfa fimleika. „Við hefðum ekkert staðið okkur svona vel og sigrað þetta ef við hefðum ekki þennan grunn á bakinu en allar íþróttir geta hjálpað til við undirbúning á þessu móti. Svo þurfum við auðvitað að taka séræfingar fyrir greinarnar sem við keppum í á mótinu.“

Holtaskóli fékk fyrir sigurinn tvöhundruð þúsund krónur. Þá fengu krakkarnir stórar ostakörfur og ferð til Finnlands á mótið. Mótið fer fram á ólympíuleikvanginum í Helsinki og því svo slúttað í íshokkíhöllinni en um 50.000 manns verða á mótinu. „Við missum af skólaslitunum. Það var hugmynd um að færa skólaslitin fyrir okkur en það var ekki hægt svo við missum af þeim. Þetta á eftir að vera mikil upplifun og skemmtun því það er svo margt hægt að gera í Finnlandi. Strax á mánudaginn fer mikill undirbúningur í gang og ætlum við að æfa stíft fram að brottför, kanski ein og ein armbeygja á flugvellinum, hver veit,“ sögðu krakkarnir hressir en þau sögðust ekki geta beðið eftir þessu ævintýri.

Myndir: Siggi Jóns


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024