Sigurinn aldrei í hættu hjá Keflavík
– Haukur Baldvinsson fluttur slasaður á sjúkrahús
Keflavík vann öruggan sigur á Selfossi, 3:0 í 1. deildinni í knattspyrnu karla í dag, en leikið var á Nettóvellinum í Keflavík.
Magnús Þórir Matthíasson kom heimamönnum í 1:0 þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Sigurbergur Elísson bætti við marki fyrir Keflavík þremur mínútum síðar og heimamenn fóru með 2:0 forystu inn í leikhlé. Auk þess að skora þá lagði Sigurbergur upp hin mörkin tvö fyrir félaga sína í leiknum.
Jónas Guðni Sævarsson fagnaði heimkomunni og skoraði þriðja mark Keflvíkinga á 59. mínútu. Jónas ekki oft á skotskónum en byrjar sannarlega vel. Þetta er fyrsti sigur Keflavíkur á leiktíðinni en Keflvíkingar gerðu jafntefli í fyrstu umferðinni gegn HK.
Haukur Baldvinsson var borinn af velli í leiknum og fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl. Jafnvel er talið að hann sé ristarbrotinn.
Meðfylgjandi myndir (sjá myndasafn að neðan) tók Hilmar Bragi í leiknum.
Sigurbergur Elísson bætir við öðru marki Keflavíkur með fallegu skoti. Fleiri myndir í myndasafni hér að neðan...