Sigurgangan á enda
Keflavíkurstúlkur misstu sín fyrstu stig í sumar þegar þær gerðu jafntefli við HK/Víking á heimavelli sínum, 3-3.
Segja má að úrslitin hafi ekki verið í nokkru samræmi við gagn leiksins því að Keflavík var langtum betri aðilinn og komust gestirnir varla fram fyrir miðju nema rétt til að skora mörkin þrjú.
Keflvíkingar komust yfir með marki frá Ólöfu Helgu Pálsdóttur en HK/Víkingur jafnaði stuttu seinna. Staðan í hálfleik var 1-1 en Guðný Þórðardóttir og Inga Lára Jónsdóttir breyttu stöðunni í 3-1 í upphafi seinni hálfleiks. Mark Ingu Láru var sérlega glæsilegt, aukaspyrna hennar frá miðjum velli sveif í fallegan boga inn í teig og skoppaði boltinn óáreittur inn í markið án þess að nokkur næði til hans.
Þá héldu flestir að björninn væri unninn en einbeitningarleysi í vörninni varð þeim að falli. Gestirnir skoruðu tvö ódýr mörk á 80. og 83. mínútu og jöfnuðu leikinn og sama þótt 8 mínútum hafði verið bætt við venjulegan leiktíma náðu Keflvíkingar ekki að bæta við marki.
Jafntefli var niðurstaðan og fögnuðu stúlkurnar úr HK/Víkingi eins og þær hefðu unnið meistaratitilinn. Keflvíkingar mega þó vel við una því þær eru nú tryggar í undanúrslitin.
Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari Keflavíkur, var síður en svo sátt í leikslok. „Þetta voru hundleiðinleg mörk sem við vorum að fá á okkur. Þær áttu þrjú færi og skoruðu úr þeim öllum. Þetta kemur okkur þó vonandi niður á jörðina og kennir okkur að við verðum að vera með hausinn í lagi og nýta færin okkar í undanúrslitunum. Þetta verður brjáluð barátta og við verðum að undirbúa okkur vel. Það er á hreinu.“
VF-myndir/Héðinn Eiríksson