Sigurganga Keflavíkur heldur áfram
Keflavíkurstúlkur sigruðu Hauka 5-2 í 1. deild kvenna í Keflavík í kvöld. Þær eru nú efstar í sínum riðli með fullt hús stiga, eða 27 stig eftir 9 leiki. Stelpurnar hafa skorað 91 mark í leikjunum níu en aðeins fengið á sig fjögur. Ólöf Helga Pálsdóttir var á skotskónum og gerði þrjú mörk en Guðný Þórðardóttir gerði hin tvö.
Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af leiknum en þegar skammt var til leikhlés tók Ólöf til sinna ráða og gerði tvö mörk. Keflavík skoraði svo þriðja markið á upphafsmínútum seinni hálfleiks, Haukastúlkur voru ekki af baki dottnar og svöruðu með tveimur mörkum á skömmum tíma. Lengra komust þær þó ekki og Keflavík bætti við tveimur mörkum og innsiglaði 5-2 sigur sinn og þann níunda í röð í deildinni.
VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson