Sigurður Ragnar aðalþjálfari Keflvíkinga
Keflvíkingar hafa gert breytingar á þrjálfarateymi meistaraflokks karla í knattspyrnu en Sigurður Ragnar Eyjólfsson verður aðalþjálfari liðsins og mun Haraldur Guðmundsson vera honum til aðstoðar.
Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Keflavíkur segir að deildina hafi komist að samkomulagi við Sigurð Ragnar um að hann verði aðalþjálfari meistarflokks karla hjá félaginu. Honum til aðstoðar verður Haraldur Guðmundsson sem þjálfað hefur meistaraflokk karla hjá Reyni Sandgerði síðustu ár.
Knattspyrnudeild Keflavíkur þakkar Eysteini Húna Haukssyni, öðrum aðalþjálfara liðsins síðustu tvö ár, fyrir frábær störf í þágu meistaraflokksins síðustu ár en hann tók við liðinu á erfiðum tíma um mitt sumar 2018 eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari þar áður. Eysteinn og Sigurður Ragnar komu Keflavíkurliðinu upp úr Lengjudeildinni í fyrra og héldu liðinu í deildinni á liðnu sumri. Eysteinn Húni starfar ennþá hjá yngri flokkum Keflavíkur og er í viðræðum við félagið um stærra hlutverk í afreksstarfi félagsins.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson verður aðalþjálfari félagins en hann hefur verið þjálfari liðsins ásamt Eysteini síðan í lok árs 2019. Sigurður hefur mikla reynslu af þjálfun, en hann náði eftirtektarverðum árangri með íslenska kvennalandsliðið á sínum tíma og hefur einnig þjálfað í Kína og Noregi auk félagsliða á Íslandi.
Sigurði til aðstoðar verður Haraldur Guðmundsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og leikmaður og fyrirliði Keflavíkur til margra ára. Hann hefur þjálfað lið Reynis Sandgerði með góðum árangri síðustu ár, tók við þeim í fjórðu efstu deild og skilur við þá í annarri deildinni. Knattspyrnudeildin er spennt fyrir því að fá Harald aftur til félagsins enda sannur Keflvíkingur sem brennur fyrir hag félagsins og þekkir innviði þess betur en flestir.
Miklar væntingar eru gerðar til liðsins á næstu árum og er stefnan sett á að festa Keflavík í deild þeirra bestu og byggja upp knattspyrnumenn til framtíðar sem muni mynda hjartað í liðinu til næstu ára.