Sigurður og Bárður í Sláturhúsinu
Njarðvík og Grindavík leika á útivelli í IE – deild karla í körfubolta í kvöld en Keflvíkingar taka á móti Snæfell þegar heil umferð fer fram. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.
Sigurður Ingimundarson og Bárður Eyþórsson leiða saman lærisveina sína í kvöld er Keflavík tekur á móti Snæfell í Sláturhúsinu eins og áður greinir en þessi lið hafa leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn síðustu tvö ár.
Njarðvíkingar leika gegn Haukum að Ásvöllum en sigri Haukar í leiknum auka þeir enn á spennuna í deildinni bæði við toppinn og botninn.
Grindavík heldur í Hveragerði og leikur þar á móti Hamri/Selfoss sem gerir sér vonir um sæti í úrslitakeppninni eftir að hafa seilst í vasa Keflvíkinga eftir tveimur stigum.
Aðrir leikir kvöldsins eru:
Þór Akureyri – Fjölnir
KR – Skallagrímur
ÍR - Höttur