Sigurður lék 20 golfhringi í Leirunni í janúar
Sigurður Albertsson sló enn eitt metið á sínum golfferli þegar hann fór tuttugu sinnum í golf í janúarmánuði í Leirunni. Sigurður notar flest öll tækifæri til að fara golfhring og hefur notað blíðuna í vetur til að mæta í Leiruna. Hann hefur í raun ekkert stoppað frá því í sumar og haust.
Sigurður er mesti afreksmaður eldri kylfinga á Íslandi, hefur t.d. leikið með öldungalandsliðum undanfarin 17 ár í röð. Þá hefur hann orðið Íslandsmeistari sjö sinnum.
Sigurður er í hópi með nokkrum eldri kylfingum sem mæta í Leiruna, helst á hverjum degi en þó ná veðurguðirnir stundum að stoppa þá af. Þá hafa þeir kappar tíma til að fara og þvo bíla sína.
Ekki er vitað til að kylfingur hafi leikið svo marga hringi í janúarmánuði hjá Golfklúbbi Suðurnesja og kannski á Íslandi. Veðrið fyrstu dagana í febrúar hefur ekki stoppað kappana af og kannski eigum við von á nýju meti hjá Sigga Alberts eftir febrúar?
VF-mynd/pket: Sigurður Albertsson á 4. teig á Evrópumóti 70 ára öldunga sl. sumar í Leirunni. Á neðri myndinni má sjá fleiri kylfinga við 18. flötina í sama móti.