Sigurður er nýr formaður GS
Sigurður Garðarsson var kjörinn formaður Golfklúbbs Suðurnesja á aðalfundi klúbbsins í gær. Hann tekur við starfinu af Gunnari Þórarinssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir sex ára formennsku.
Heildartekjur klúbbsins á starfsárinu námu 58 milljónum króna og tap ársins var upp á rúmar 1,4 milljónir króna. Ársreikningar og skýrsla stjórnar voru samþykktir einróma á fundinum. Eftir kaffihlé voru tillögur stjórnar um árgjöld fyrir árið 2009 lagðar fram, en í þeim eru sömu gjöld og fyrir árið 2008. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 var lögð fram og endurspeglar hún ástandið í þjóðfélaginu, tekjur dragast saman og einnig er töluverður samdráttur í útgjöldum. Báðar þessar tillögur voru samþykktar.
Sigurður Garðarsson sagði í stuttu ávarpi eftir kosningu í gærkvöld ljóst að mikið starf væri framundan á erfiðum tímum en mörg góð tækifæri væru einnig í spilunum. Áherslurnar framundan væru þríþættar. Í fyrsta lagi að styrkja félagsstarfið enn frekar, endurskoða allan reksturinn og síðast en ekki síst að reyna af fremsta megni að halda uppi gæðum og þjónustu á Hólmsvelli sem allir væru sammála um að væri meðal bestu golfvalla á landinu. „Það er ljóst að við þurfum að reiða okkur á félagana í kreppunni. Við þurfum að sýna ráðdeild og útsjónarsemi og ég er bjartsýnn á að það takist því í hópi fimmhundruð félaga er mikill mannauður,“ sagði Sigurður.
Gylfi Kristinsson sem verið hefur framkvæmdastjóri GS undanfarin átta ár hefur tekið við starfi umboðsmanns VÍS á Suðurnesjum og lauk starfi sínu hjá klúbbnum á aðalfundinum sem framkvæmdastjóri. Hann gaf þó kost á sér til stjórnarstarfa GS og er það fengur fyrir klúbbinn. Á aðalfundinum þakkaði fráfarandi formaður, Gunnar Þórarinsson Gylfa og Þórði Karlssyni sem setið hefur í stjórn samfleytt síðustu sextán ár. Það hefur enginn annar gert nema Hörður Guðmundsson, fyrrverandi formaður GS en hann lést fyrr á árinu. Fengu þeir Gylfi og Þórður afhentar fallega loftmynd af Hólmsvelli eftir Oddgeir Karlsson.
Töluverð endurnýjun var á stjórn GS. Uppstillingarnefnd lagði fram tillögu að stjórn Golfklúbbs Suðurnesja og var hún samþykkt. Stjórn GS fyrir næsta starfsár skipa eftirtaldir:
Formaður: Sigurður Garðarsson
Aðalstjórn: Helga Sveinsdóttir, Jón Ólafur Jónsson, Kjartan Már Kjartansson, Þröstur Ástþórsson, Björn Víkingur Skúlason og Páll Hilmar Ketilsson.
Varamenn í stjórn:: Gylfi Kristinsson, Einar Guðberg Einarsson og Anna María Sveinsdóttir.
Árgjöld 2009
Karlar: kr. 55.000-
Konur: kr. 50.000-
Unglingar: 16-19 ára. kr.30.000-
Unglingar: 13-15 ára. kr.25.000-
Börn 12 ára og yngri: kr.20.000-
67 ára og eldri: kr.30.000-
Nýliðar: 20-66 ára kr.40.000-
Hjónagjald: kr. 85.000-
Fjölskyldugjald: 20 % afsláttur (upp að 19 ára aldri)
Námsmanna gjald: kr. 30.000-
Aukaaðild (er í öðrum klúbb): kr. 35.000-
Aðilar utan Suðurnesja: kr. 45.000-
Hjónagjald, aðilar utan Suðurnesja: kr. 65.000
Mynd/VF: Sigurður Garðarsson er nýr formaður Golfklúbbs Suðurnesja.
Þórður Karlsson, Gunnar Þórarinsson og Gylfi Kristinsson á aðalfundi GS í gærkvöldi.