Sigurbergur leikmaður 20. umferðar: Var búinn að lofa pabba 3 stigum
Keflvíski framherjinn Sigurbergur Elísson var kjörinn leikmaður 20. umferðar í Inkasso-deildinni í knattspyrnu en hann fór mikinn í 4-0 sigri Keflvíkinga á Leikni í síðustu umferð.
Elís Kristjánsson, faðir Sigurbergs, lést í síðustu viku eftir baráttu við krabbamein. Sigurbergur segir í viðtali við fotbolti.net að það hafi verið erfitt að leika þennan leik.
„Það var virkilega erfitt. Án efa erfiðasti leikur sem ég hef þurft að spila. En eitthvað sem ég vildi gera fyrir hann og fyrir sjálfan mig. Ég var líka búinn að lofa honum 3 stigum þannig að mér fannst ég þurfa að spila þennan leik til þess að ná að kveðja hann fullkomlega,“ sagði Sigurbegur við Fótbolta.net.
Elís var þjálfari hjá Keflavík um árabil og hans var minnst fyrir leikinn á laugardag.
„Mér brá aðeins þegar við löbbuðum inn á völlinn, „You´ll never walk alone“ var spilað honum til heiðurs enda var hann gallharður „Púlari“. Svo var mínútuþögn, erfið stund en liðsfélagar mínir stóðu þétt við bakið á mér.“
Sigurbergur segir að 4-0 sigur Keflvíkinga hafi ekki verið jafn auðveldur og tölurnar gefa til kynna. „Nei get ekki sagt það, það var ekki fyrr en við settum annað markið að við náðum algjörum tökum á leiknum. Þá var eins og það kom einhver ró yfir okkur og við náðum góðu spili og héldum boltanum vel, eitthvað sem hefur vantað upp á hjá okkur oft í sumar.“
Keflvíkingar eru í 3. sæti í Inkasso-deildinni, átta stigum frá öðru sætinu þegar tvær umferðir eru eftir. Hvað vantaði upp á hjá liðinu til að gera meiri atlögu að því að fara upp í sumar?
„Við höfum ekki náð að klára leikina okkar. Of mörg jafntefli. Við höfum ekki náð að stjórna leikjum nógu vel þegar við eigum að gera það. Það eru svo margir litlir hlutir sem við hefðum getað gert svo miklu betur. Þetta féll bara ekki fyrir okkur í ár á meðan lið eins og KA og Grindavík kláruðu sín verkefni.“