Sigurbergur æfir með Verona á Ítalíu
Keflvíkingurinn efnilegi Sigurbergur Bjarnason er staddur á Ítalíu þessa dagana þar sem hann æfir með Seria-A liðinu Hellas Verona. Með liðinu leikur einmitt landsliðsmaður Íslands í fótbolta, Emil Hallfreðsson.
„Er bara búinn að fara á eina æfingu og það gekk bara mjög vel svo er ég á æfingum út þessa viku,“ sagði Sigurbergur í snörpu viðtali við Víkurfréttir. Hann sagðist hæstánægður með dvölin. Bjarni Jóhannsson þjálfari KA, er faðir Sigurbergs en hann er einmitt staddur með stráknum á Ítalíu. „Pabbi er að fylgjast með æfingum hjá aðalliði Verona og honum datt í hug að athuga hvort ég mætti fara og æfa með unglingaliði félagsins í smá tíma og þeir gáfu grænt ljós á það,“ segir Sigurbergur. Þessi efnilegi varnarmaður var í hóp Keflvíkinga í Pepsi-deildinni í síðasta leik sumarsins en hann er einungis 15 ára.