Sigurbergur á nýjum slóðum
Kominn aftar á völlinn
Keflvíkingurinn Sigurbergur Elísson hefur fengið nýtt hlutverk hjá Keflvíkingum í Pepsi-deildinni þetta sumarið. Vanalega hefur Sigurbergur haldið sig framarlega á vellinum og spilað sem sóknarmaður eða kantmaður með meistaraflokki. Sigurbergur sem verður 21 árs innan skamms hefur tekið við hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns en honum er ætlað að leysa hlutverk sem Einar Orri Einarsson leysti svo vel af hólmi í fyrra.
Sigurbergur segir þetta vissulega vera nýtt umhverfi. Hann á stundum í erfiðleikum með að hemja sig og hlaupa ekki fram þegar liðið hefur sókn. „Þetta er svolítið skrítið en ég er með góða menn þarna í kringum mig sem maður lærir af.“ Einar Orri er meiddur og kemur líklega ekki til með að leika mikið á þessu tímabili. Zoran þjálfari nálgaðist þá Sigurberg og bað hann um að taka stöðuna að sér. „Hann ákvað að prófa mig þarna og það er greinilegt að hann treystir mér fyrir þessu.“
Keflvíkingar eiga leik í kvöld en þar eru nýliðar Víkings Ólafsvík mótherjarnir. „Þó svo að tímabilið sé nýhafið þá verður að segjast eins og er að þetta gæti talist sem sex stiga leikur. Það yrði ekki gott að vera stigalaus eftir þrjár umferðir og sennilega er langt síðan það gerðist.“ Það hefur í raun ekki gerst síðan Keflvíkingar komu aftur upp í efstu deild árið 2004. Það þarf að leita aftur til ársins 1986 en þá töpuðu Keflvíkingar fyrstu þremur leikjum sínum á Íslandsmótinu. Hann segir að Keflvíkingar ætli sér ekkert annað en sigur í Ólafsvík. „Við vorum frekar andlausir gegn KR og það mun ekki gerast í næsta leik. Við eigum að geta gert miklu betur,“ sagði Sigurbergur en nánara viðtal má lesa í Víkurfréttum í dag.