Sigur og tvö jafntefli
Tvö markalaus jafntefli urðu hjá Suðurnesjaliðum í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld og einn sigur.
Njarðvík og Fjölnir skildu jöfn á Rafholtsvellinum í Njarðvík. Leikurinn var opinn og fjörugur án þess þó að gild mörk væru skoruð. Fjölnismenn settu knöttinn í net Njarðvíkinga í síðari hálfleik en markið var dæmt af þeim.
Grindvíkingar tóku á móti Þór á Stakkavíkurvellinum í Safamýri. Þar voru Suðurnesjamörkin skoruð í kvöld.
Einar Karl Ingvarsson kom heimamönnum yfir á 19. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson jók forystuna í 2-0 á 56. mínútu og Josip Krznaric innsiglaði svo flottan 3-0 sigur þegar fimm mínútur lifðu af venjulegum leiktíma. Verðskuldaður sigur
Keflavík og Leiknir R. skildu einnig jöfn í kvöld. Markalaust í þeim leik en Ásgeir Orri var hetja Keflvíkinga, las vítaspyrnu Omar Sowe rétt og varði glæsilega.
Eftir leiki kvöldsins höfðu Njarðvík og Keflavík sætaskipti. Njarðvíkingar eru komnir í 3. sæti deildarinnar og Keflavík fór niður í það fjórða. Bæði lið með 27 stig en Njarðvíkingar betri markatölu. Grindavík er í 8. sæti deildarinnar með 20 stig. Fjölnir er á toppi deildarinnar með 33 stig og ÍBV í öðru sæti með 32 stig.
Myndasafn úr Njarðvík er hér að neðan.