Sigur og svekkelsi í Röstinni
Þrátt fyrir sigur Grindavíkur gegn KR í Röstinni í dag verða það KR-ingar sem munu hafa heimaleikjaréttinn gegn Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Það verða Keflavík og Haukar sem mætast í fyrstu umferðinni og svo KR og Grindavík. Gular og glaðar hefðu þurft að hafa 16 stiga sigur eða meira í dag en lokatölur voru 80-67 Grindavík og það dugði ekki til að ná heimaleikjaréttinum. Tiffany Roberson fór mikinn hjá heimaliðinu í dag með 40 stig og 14 fráköst. Hjá KR gerði Candace Futrell 32 stig og tók 13 fráköst.
Gestirnir úr Vesturbænum voru sterkari framan af leik og léku svæðisvörn sem reyndist Grindvíkingum þungfær. KR leiddi 12-19 að loknum fyrsta leikhluta og höfðu áfram yfirhöndina í leikhléi þó nokkuð hefði lifnað yfir leik beggja liða. Staðan í leikhléi var 32-36 fyrir KR sem hafði algera yfirburði í frákastabaráttunni í dag.
Grindvíkingar náðu svo að jafna metin í síðari hálfleik í 42-42 og komust svo yfir og höfðu yfirhöndina allt þar til lokaflautan gall. Mikil spenna var í Röstinni í dag því ef Grindavík hefði unnið leikinn með 16 stiga mun þá hefðu þær náð heimaleikjaréttinum. Lokatölurnar reyndust 80-67 og því dugði Grindvíkingum ekki 13 stiga sigur.
Petrúnella Skúladóttir setti niður stóran þrist þegar skammt var til leiksloka og staðan 80-64 en það voru KR-ingar sem gerðu þrjú síðustu stig leiksins. Grindvíkingar áttu innkast á miðjum vellinum þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka en Hildur Sigurðardóttir náði til boltans og KR-ingar héldu honum uns flautan gall.
Hildur Sigurðardóttir leikmaður KR sagði að það hefði verið skrýtið að fagna í leikslok í tapleik: ,,Við börðumst vel í dag en urðum svolítið kærulausar, kannski að þessi 16 stiga hugleiðing hafi verið eitthvað að trufla okkur, ég veit það ekki. Við þurfum að fara að klára auðveldu hlutina betur, við erum að klikka á sniðskotum og vítaskotum og ef við náum upp baráttu í vörninni þá á þetta að koma hjá okkur. Við erum með nýjan leikmann og við eigum alveg eftir að standa okkur í framhaldinu,” sagði Hildur.
,,Þetta var mjög tæpt og það sem skildi að var fyrri hálfleikurinn og þá vorum við ekki tilbúnar. Ef við spilum af hörku erum við færar um að vinna titilinn. Það hefði vissulega verið gott að hafa heimaleikjaréttinn en þetta er að baki og ef þú villt vinna Íslandsmeistaratitilinn þá þarftu bara að fara í gegnum sterkustu liðin, það er engin auðveld leið til í þessu,” sagði Igor Beljanski í leikslok en það voru blendnar tilfinningar hjá þjálfaranum því þrátt fyrir sigur í dag urðu Grindvíkingar að láta frá sér heimaleikjaréttinn.
Úrslitakeppnin í Iceland Express deild kvenna hefst næstkomandi laugardag, 15. mars, þegar KR tekur á móti Grindavík og Keflavík fær Hauka í heimsókn í Toyotahöllina.
Tölfræði leiksins
VF-Mynd/ [email protected]
15. mars hefst úrslitakeppnin