Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigur og jafntefli í 1. umferð Landsbankadeildarinnar
Sunnudagur 16. maí 2004 kl. 18:22

Sigur og jafntefli í 1. umferð Landsbankadeildarinnar

GRINDAVÍK-ÍBV 1-1
Grindavík og ÍBV skildu jöfn, 1-1, á Grindavíkurvelli í dag. Veðurguðirnir léku ekki beint við leikmenn og áhorfendur þar sem gekk á með mikilli rigningu og roki. Liðin byrjuðu þó af krafti og áttu bæði góð færi á upphafsmínútunum þar sem Grindvíkingar vörðu á línu eftir hornspyrnu Eyjamanna og Birkir Kristinsson varði hörkuskalla Grétars Hjartarsonar.
Gestirnir náðu taki á leiknum innan tíðar og réðu lögum og lofum fram að hálfleik. Lítið var um að vera í sóknartilburðum Grindvíkinga og áttu Eyjamenn mun fleiri marktækifæri á annars bragðdaufum kafla.
Í seinni  hálfleik héldu ÍBV frumkvæðinu og komust loks yfir eftir mikla pressu þegar Magnús Már Lúðvíksson skoraði eftir að hafa sloppið innfyrir vörnina á 56. mínútu.
Grindvíkingar hresstust við eftir að hafa lent undir og var allt annað að sjá til liðsins eftir það. Ray Anthony Jónsson hafði komið inn á í hálfleik og lét finna fyrir sér á vinstri vængum með laglegum og áræðnum hlaupum. Gestur Gylfason, Eysteinn Hauksson og Sinisa Kekic börðust eins og ljón á miðjunni og í vörninni og var leikurinn orðinn ansi harður á tímabili.
Þegar komið var fram á 70. mínútu fengu Grindvíkingar aukaspyrnu fimm metrum fyrir utan teig eftir að brotið hafði verið á Gesti. Grétar Hjartarson tók spyrnuna og skoraði glæsilegt jöfnunarmark með óverjandi skoti og staðan var orðin 1-1.
Grindvíkingar komust ekki lengra þrátt fyrir vasklega framgöngu á endasprettinum og varð jafntefli því niðurstaðan.

Zeljko Sankovic, þjálfari Grindvíkinga, var ekki alveg sáttur við úrslitin. „Við erum auðvitað ekki ánægðir með að ná bara einu stigi, en þetta var harður leikur. ÍBV voru líka að spila mjög vel. Áhorfendur voru sennilega að fá meira út úr leiknum en leikmennirnir og þjálfararnir því leikurinn var opinn og skemmtilegur með fullt af færum og ég held að við getum búist við slíku í sumar.“ Zeljko sagðist búast við því að liðið færi að finna sig betur saman á næstunni og hrósaði Grétari Hjartarsyni sérstaklega fyrir frammistöðu hans í dag. „Hann skoraði frábært mark og var bestur okkar manna í dag.“

 

KA-KEFLAVÍK 1-2
Keflvíkingar unnu góðan útisigur á KA, 1-2, í fyrsta leik sumarsins. Hreinn Hringsson hafði kom heimamönnum yfir snemma leiks, en Jónas Sævarsson og Hólmar Rúnarsson skoruðu mörk Keflvíkinga í seinni hálfleik.
Keflvíkingar virtust hálfóstyrkir í byrjun leiks og voru ekki að skapa nein tækifæri þrátt fyrir að vera meira með boltann. Heimamenn virkuðu frískari og komust yfir með marki frá Hreini á 28. mínútu, og gestirnir virtust ekki eiga svar. Í seinni hálfleik tóku þeir þó loks við sér og voru mun sterkari aðilinn. Jónas Guðni Sævarsson jafnaði leikinn með sínu fyrsta marki í efstu deild á 56. mínútu eftir laglegt spil og á 74. mínútu skoraði Hólmar Örn Rúnarsson sannkallað glæsimark með utanfótarskoti á fjærstöngina og tryggði sínum mönnum sigur í fyrsta leik þeirra í efstu deild eftir árs fjarveru.

Milan Stefán Jankovic var ánægður með sigurinn sem hann sagði hafa verið afar mikilvægan. „Við vorum ekki að ógna neitt í fyrri hálfleik þótt við værum meira með boltann, en í seinni hálfleik fundum við að við gátum þetta alveg. Margir strákanna höfðu ekki spilað áður í úrvalsdeild og voru kannski svolítið stressaðir í byrjun en það lagaðist allt.“ Milan bætti því við að þeir hlökkuðu nú mikið til fyrsta heimaleiksins sem verður á fimmtudaginn og sérstaklega að fá að spreyta sig gegn sterku liði eins og Íslandsmeisturum KR. „Ég hlakka mikið til og vona bara að sem flestir mæti til að styðja okkur.“

VF-myndir/Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024